Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
maí

24


2015
Almennt
Skemmtilegt verkfall fyrir 40 árum
Líklegast er það vegna þeirra verkfalla sem ýmist standa yfir eða eru á næsta leiti, sem hugurinn reikar nærri 40 ár aftur í tímann, til eina verkfallsins sem ég tók nokkru sinni þátt í. Það var sannast sagna afar skemmtilegt verkfall – og stóð stutt. 

Þetta var sumarið 1977. Ég var næturvörður á hótelinu við Rauðarárstíg, sem þá hét Hótel Hekla. Framsóknarflokkurinn átti húsið og notaði hálfa fyrstu hæðina undir skrifstofur en leigði mestallt húsið undir hótel.

Ráðin upp á hlut
Vorið 1977 tóku hjón hótelið á leigu og réðu sér starfsfólk. Ég hafði verið þarna næturvörður í afleysingum meðfram háskólanum og var ráðinn áfram. Laun áttu að greiðast samkvæmt eins konar hlutaskiptakerfi, sem þau hjónin sögðu að hefði gefist vel á Eddu-hótelunum úti á landi.

Mér leist ekkert illa á þetta og sama gilti um annað starfsfólk. Ef vel gengi fengjum við hátt kaup. Í versta falli fengjum við lítið. Og við vorum til í taka dálitla áhættu.

Málið reyndist þó ekki svo einfalt. Sá hluti af heildartekjum, sem kom til skipta reyndist miklu minni en ég hafði gert ráð fyrir. Skýringarnar voru að sumu leyti eðlilegar. Húsaleiguna þurfti auðvitað að borga af óskiptu og hitt var líka eðlilegt að leggja eitthvað í varasjóð til að geta haldið hótelinu opnu yfir vetrartímann.

Ég lagðist í útreikninga og þrennt gat ég ekki sætt mig við:

Varasjóðurinn var of stór. Mér sýndist að hann myndi duga þótt hótelið stæði nærri tómt og að auki virtist gert ráð fyrir ámóta mörgu starfsfólki. Hvorug forsendan var eðlileg.

Hótelstjórinn fékk tvöfaldan hlut, en tók ekki þátt í neinni vinnu.

 Síðast en ekki síst kom í ljós, að þótt hótelið væri nærri fullbókað flestar nætur, voru launin okkar undir töxtum Félags starfsfólks í veitinga- og gistihúsum.

Júnísamkomulag
Ég ræddi þetta við hótelstjórann og niðurstaðan varð sú að við gerðum bráðabirgðasamkomulag fyrir júní. Það dugði til þess að halda starfsfólkinu yfir lágmarkstöxtum og reyndar gott betur. Mér féll ágætlega við þennan mann. Hann tók rökum og hafði held ég hreinlega ekki gert sér ljóst að hann væri að borga starfsfólki sínu minna en lágmarkslaun. Í framhaldinu ætlaði hann að skoða tölurnar betur og tala við okkur aftur þegar liði á júlí.

En þá kom frúin til skjalanna. Hún hafði verið á Edduhóteli úti á landi, en skipti nú við manninn sinn. Og á henni var engan bilbug að finna. Hún vildi ekkert við okkur tala og þegar við sýndum ekki tilhlýðilega auðmýkt afhenti hún okkur uppsagnarbréf með viku fyrirvara. Hjá FSV fékk ég strax staðfest að svo skammur fyrirvari væri ólöglegur.

En að öðru leyti gat stéttarfélagið ekkert fyrir okkur gert. Eitthvað var minnst á Félagsdóm, sem kannski hefði seint og um síðir dæmt okkur lágmarkslaun. En þau hefðu þá löngu verið brunnin upp á verðbólgubáli þessara tíma.

Verkfall skipulagt
Einhvers staðar þarna kviknaði hugsunin í kollinum á mér: Við förum í verkfall. Löglegt eða ólöglegt? Skítsama, við lokum hótelinu.

En mér fannst ég þurfa á ráðleggingum að halda. Ég hringdi dyrabjöllunni heima hjá Einari Olgeirssyni, sem ég var lítils háttar málkunnugur. Einar tók mér vel, en gerði langa sögu stutta. Hann sendi mig beina leið niður í Dagsbrún til Guðmundar J. Guðmundssonar, Gvendar Jaka.

Og ég talaði við Jakann. Hann tók mér afar hlýlega og gaf sér góðan tíma til að fara yfir málið með mér. Sumar hugmyndir mínar afskrifaði hann strax, en lagfærði aðrar. Ég gekk út frá honum með nokkurn veginn fullkomið plan.

Svo lögðum við til atlögu. Sem næturvörður hafði ég aðgang að pöntunum, sem í þá daga voru einfaldlega handskrifaðar í dagbók. Og svo merkilega vildi til að hótelið tæmdist alveg, líklega 1. ágúst - en var hins vegar nánast fullbókað daginn eftir. Þetta var tíminn!

Ég bar þetta undir samstarfskonur mínar og þær voru sammála. Við skyldum fara í verkfall klukkan 20:00 að kvöldi 1. ágúst.

Verkfallsverðirnir
Þá víkur sögunni að því, sem mér hefur alltaf þótt skemmtilegst við þetta litla verkfall okkar.

Þetta var á blómatíma litlu kommúnistahreyfinganna, sem spruttu upp úr jarðvegi óeirða og mótmæla gegn Víetnamstríðinu. Eftir á að hyggja er kannski merkilegast hvernig svo fámennum hópi brennandi hugsjónafólks tókst að kljúfa sig oft og smátt. Aðalklofningurinn var auðvitað milli Trotskýista og Stalínista, sem reyndar fannst viðkunnanlegra að kalla sig Maóista.

Og milli Trotskýista og Maóista ríkti afar gagnkvæm fyrirlitning, kannski jafnvel djúpstætt hatur.

Ég átti vini og kunningja í báðum þessum meginfylkingum. Og nú vantaði mig verkfallsverði. Eitt af því sem Jakinn hafði útskýrt fyrir mér, var einmitt að með nógu marga verkfallsverði, væri von til að þetta gæti gengið upp.

Ég átti að mæta á næturvaktina klukkan átta. Ég mætti á tilsettum tíma, en tilkynnti hótelstýrunni að hér væri hafið verkfall. Fáeinum mínútum síðar var anddyrið orðið troðfullt af verkfallsvörðum.

Maóistinunum brá að vísu svolítið þegar þeir sáu Trotskýistana og öfugt. En verkfallsvarsla var kjarabarátta og kjarabarátta var stéttabarátta, sem var öllu þessu unga fólki sameiginleg hugsjón. Aldrei þessu vant féll ekki styggðaryrði milli Maóista og Trotskýista þetta kvöld.

Hótelstýran gaf mér klukkutíma til að koma þessum óþjóðalýð út. Annars ætlaði hún að hringja á lögregluna. Það var guðvelkomið af minni hálfu.

Lögreglan hvarf frá
Lögreglan kom svo líklega upp úr níu, en leist ekki á blikuna. Verkfallsverðirnir voru vafalaust fleiri en pláss var fyrir í fangaklefum. Að auki hafa ýmis andlit verið lögreglumönnunum kunnugleg úr mótmælagöngum, þar sem stundum sauð upp úr.

Kannski hefur það líka haft einhver áhrif, að á staðnum ríkti fullkomin rósemi og ég útskýrði ástæðu verkfallsins einfaldlega með því, að hér væri starfsfólki borgað undir lögbundnum lágmarkstaxta. Allavega ákvað lögreglan að aðhafast ekkert í bili.

Eftir að lögreglan hvarf frá, liðu kannski 10-15 mínútur, þar til ég var beðinn að koma til „viðræðna“. Fyrir hótelið var mikið í húfi. Það var von á húsfylli af nýjum hótelgestum um eða upp úr miðnætti.

Samið á mettíma
Ég fékk með mér fulltrúa frá FSV. „Viðræðurnar stóðu kannski í hálftíma og síðan var skrifað undir sams konar samkomulag og gilt hafði í júní. Rétt upp úr ellefu um kvöldið gat ég tilkynnt vinum mínum, verkfallsvörðunum, bæði maóistum og trotskýistum, að verkfallinu væri lokið með fullum sigri. Kröfur okkar voru samþykktar. Flóknara var það ekki.

Ég kom mér fyrir á mínum stað bak við afgreiðsluborðið og skráði inn hótelgesti fram eftir nóttu.

Okkur var að vísu öllum sagt upp störfum, en nú með með löglegum fyrirvara. Um það var okkur hjartanlega sama. Við vorum hvort eð var öll á leiðinni í aðrar áttir.


PS: þetta litla verkfall okkar þótti almennt ekki fréttnæmt. Ég held að Stéttabaráttan hafi verið eina blaðið sem greindi frá því:












X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd