Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði

Hver stal jólunum?

Mikið er út af fyrir sig skemmtilegt að fólk skuli geta slitið sig frá umræðu um skuldavanda heimila og útbreidda fátækt til að óskapast yfir því að illa innrætt fólk ætli sér að banna prestum þjóðkirkjunnar aðgang að skólabörnum á skólatíma.

Sumum er mikið niðri fyrir. Jón Magnússon spyr á bloggi sínu hvort leggja eigi jólin niður og síðar í pistlinum kemur þessi óborganlega málsgrein: „Gangi tillögur þessar eftir er spurning hvort ekki sé rökrétt að leggja jólahald  og jólaskreytingar alfarið niður í skólum og afnema jólafrí.“

Maður gæti haldið að verið væri að stela jólunum og Oddný Sturludóttir greip þá hugsun á lofti í Eyjupistli sínum. En þótt örlítið sé þrengt að sjálftöku þjóðkirkjunnar varðandi sálir skólabarna, er ekki verið að stela jólunum. Jólunum var nefnilega stolið fyrir löngu. Þjófurinn var kaþólska kirkjan og síðar tók sú lúterska við ránsfengnum fegins hendi.

Ein af þeim lygum sem flestum er innrætt í barnæsku er sú, að uppruna jólanna sé að rekja til fæðingar Ésúbarnsins fyrir rúmum 2.000 árum. Þetta er svo augljós lygi að prestarnir sjálfir vita manna best af henni.

Jólin eru miklu eldri en kirkja og kristni. Jólin eru ævaforn sólstöðuhátíð, sem tíðkast hefur víðast á norðurhveli jarðar miklu lengur en ritaðar frásagnir herma. Rómverskar heimildir geta um slíka hátíð um 217 f.Kr. Tilefnið er augljóst: „Sólin heim úr suðri snýr“ eins og Jónas kvað.

Kristin kirkja öðlaðist fyrst veraldlegan styrk í Rómarveldi. Þá vildu menn auðvitað berja strax niður allar fornar trúarhátíðir, en varð fljótlega ljóst að það gekk ekki. Rétt eins íslensku útrásarvíkingarnir sáu í hendi sér að fljótlegasta aðferðin til að ræna banka felst í því að eignast hann fyrst, uppgötvuðu höfðingjar kirkjunnar mjög snemma, að snjallasta aðferðin til að leggja niður fornan átrúnað væri fólgin í að stela trúarhátíðunum.

Þannig varð rómverska Satúrnusarhátíðin að fæðingarhátíð frelsarans (enda fæðingardagurinn ekki alveg á hreinu hvort eð var). Löngu síðar var svo hinum norrænu jólum stolið á sama hátt.

Stuldurinn tókst þó ekki alls kostar vel. Jólin eru ennþá „hátíð ljóssins“. Jafnvel prestarnir fallast á það. Og prestarnir segja ljósið himneskt. Það er hárrétt. Kringum 21. desember snýr hið himneska ljós til baka úr suðri og tekur aftur að þoka sér norður á bóginn til okkar. Hið himneska ljós er auðvitað sólin sjálf. Mannkyn á norðurhveli jarðar hefur haldið upp á þennan viðsnúning frá örófi alda.

Og við höldum áfram að fagna því að sólin snúi aftur. Þegar sígur á seinnipartinn í desember er botninum náð. Myrkrið verður ekki svartara. Þá er rétti tíminn til að halda hátíð ljóssins, kveikja ljós í öllum gluggum, skreyta allar götur með sem mestu ljósaskrúði  – og gefa frí í skólum.

Bara svo að það sé á hreinu hver stal jólunum.












X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er