Án þess að ég þekki ákvæði laga um forsendubrest og treysti mér til að túlka þau, virðist óneitanlega eðlilegt að slík ákvæði geti átt við um gríðarlega hækkun höfuðstóls jafnt innlendra lána sem myntkörfulána.
En það eru ekki bara lánin sem hafa hækkað. Innistæður á verðtryggðum bankareikningum hafa nefnilega hækka líka ? meira að segja hlutfallslega nákvæmlega jafn mikið og innlend, verðtryggð lán.
Nú er mér spurn: Eru forsendur innlánasamninga ekki brostnar á nákvæmlega sama hátt og forsendur útlánasamninga? Er einhver sanngirni í því fólgin að lánastofnanir séu látnar færa niður höfuðstól útlána, en þurfi á hinn bóginn að greiða innlán með fullum verðbótum?
Í vetur hafa fjölmargir sett fram tillögur um almenna niðurfærslu skulda. Framsóknarmenn og Tryggvi Þór Herbertsson vilja 20% niðurfellingu, Lilja Mósesdóttir setti fram þá hugmynd að færa öll íbúðalán niður um 4 milljónir. Borgarahreyfingin vill snúa klukkunni til baka og festa höfuðstólinn við 1. janúar 2008. Enginn hefur hins vegar nefnt einu orði að beita sömu aðferð við niðurfærslu innlána.
En ef lagaákvæði um forsendubrest standast að því er varðar niðurfærslu lána, hljóta þau að hafa nákvæmlega sama gildi gagnvart niðurfærslu innistæðna.
Og ef sú er raunin, væri kannski loksins fundin leið til almennrar niðurfærslu, sem ekki þyrfti endilega að kosta ríkissjóð ófafé.