Hún Lóa frænka mín, Ólína Valgerður Daníelsdóttir, á 110 ára afmæli í dag, 17. september, – ef svo mætti segja, því það er að verða aldarfjórðungur síðan hún dó. En jafnvel eftir svo langan tíma man ég enn árlega eftir afmælisdeginum hennar og í huganum birtist skyndilega 23359, símanúmer sem auðvitað ætti að vera löngu gleymt og er það kannski. Heilinn í manni segir nefnilega ekki alltaf alveg satt og rétt frá. En hún var merkileg manneskja, hún Lóa frænka, og mér þótti afskaplega vænt um hana.
Ég sé að í minningargrein um hana í Mogganum 5. janúar 2000 hef ég rifjað upp lítinn atburð sem kannski lýsir innsæi hennar betur en margt annað. Það er við hæfi að grípa niður í þetta greinarkorn meira en hálfri öld eftir að sá atburður gerðist, sem þar er lýst.
„Rúmum áratug eftir að þetta gerðist var ég ungur maður og af einhverjum sökum staddur á eigin vegum í Reykjavík, tiltölulega áhyggjulaus eins og ungum mönnum var títt í þá daga, - en því miður einnig peningalaus, vegalaus, matarlaus og atvinnulaus. Þá greip ég eitt sinn til þess ráðs að heimsækja Lóu frænku í matarvon. Kaus þó að koma ekki fyrr en níuleytið til að láta ekki líta út fyrir að ég hefði komið til að sníkja mér að éta. Ég held að ég hafi átt von á að fá kaffi og smákökur. En eins og ungir menn vita, getur verið talsverð næring í smákökum, sérstaklega ef maður tæmir fatið sem borið er fram. En ég fékk ekki eina einustu smáköku. Það var engu líkara en Lóa frænka sæi samstundis á hversu „viðkvæmu stigi“ málið var. Hún leiddi mig inn í eldhús, bakaði í ofni ostabrauð með sardínum og bar mér fleira góðgæti, sem þó – eins og af tilltitsemi við fávíslegt stolt þessa unga manns – gat engan veginn flokkast sem nein aðalmáltíð. Þó held ég tæpast að ég hafi nokkru sinni fengið betur útilátna undirstöðumáltíð. Og eins og til að bæta gráu ofan á svart lá við sjálft að Lóa hefði í hótunum um að troða í mig sjálf ef ég væri ekki nógu duglegur við „þetta lítilræði“.“
Flestallt fólk á sér fleiri hliðar en eina og hjartagæskan sem varð mér svo minnistæð, er síður en svo það eina sem kemur upp í hugann. Ég sé að í þessari minningargrein hef ég líka minnst aðeins á stjórnsemina, sem reyndar byggðist miklu fremur á góðri skipulagshæfni en einhverri frekju:
„Napóleon keisari er sagður hafa verið óvenju lágvaxinn maður. Þó hefur hann verið nefndur „hinn mikli“. Lóa frænka mín átti það sameiginlegt með Napóleoni að vera afar lágvaxin en ég hygg raunar ekki að herstjórnarlist Napóleons sé gerð nein vanvirða þótt stjórnlist þessarar frænku minnnar sé tekin þar til samanburðar. Þegar skipulagningar þurfti við, stóð hún óbugandi á orrustuvellinum miðjum og gaf skipanir í allar áttir. Og þær skipanir voru ekki út í loftið, heldur bjó skörp hugsun að baki hverri einustu. Aldrei minnist ég þess að nokkur maldaði í móinn þegar hún skipaði fyrir. Slíkri virðingu og höfðingsskap stafaði frá þessari lágvöxnu frænku minni.“
Snemma beygist krókurinn, var stundum sagt, og Lóa virðist hafa haft bein í nefinu strax á unga aldri. Í viðtali sem Ingólfur Guðnason tók við pabba og birtist í ársritinu Húnvetningi (nálægt 2001), barst talið meðal annars að starfsemi ungmennafélagsins Dagsbrúnar á æskudögum hans og hann nefnir bæði næturlanga dansleiki og vandlega undirbúna fundi þar sem framsögumaður hélt erindi og efni þess síðan var síðan rætt:
„Það voru sjaldnast neinar dægurþrætur sem framsögumennirnir völdu sér til umfjöllunar, heldur yfirleitt hugsjónamál. Ég get nefnt sem dæmi um þetta málefnaval að ég man enn að Ólína systir mín flutti eitt sinn erindi, sem hét “Kærleikur og hamingja”. Þarna var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur.“
Pabbi sagði mér að Lóa hefði verið 15 ára þegar hún hélt þetta erindi og það fær vel staðist, því 17 ára gömul var hún komin vestur á Ísafjörð.
Myndin, sem hér fylgir er brúðkaupsmyndin af Lóu og Héðni Sveinssyni. Þau giftu sig í Kaupmannahöfn 1939. Héðinn var merkilegur maður, vélsmiður að mennt, en ég minnist hans þó fremur sem uppfinningamanns. Ég held að hann hafi aðallega haft aðgang að tveimur „tilraunastöðvum“, annarri hjá Magnúsi, bróður sínum í Leirvogstungu, en hinni hjá pabba, mági sínum norður í Hrútafirði.
Ég man vel eftir vatnstúrbínunni sem hann sérsmíðaði þegar pabbi virkjaði bæjarlækinn til að fá ljósarafmagn og auðvitað líka eftir súrheysblásaranum sem við notuðum eitt sumar kringum 1960 og reyndist ekki nægilega afkastamikill. Best man ég þó eftir súgþurrkunarblásaranum sem var svo öflugur að hann náði nokkurn veginn að súgþurrka hey sem ógerlegt hafði verið að jafna nægilega vel fyrir venjulega súgþurrkun.
Það er notalegt að orna sér við minningar um slíkt fólk.