Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
sep.

30


2019
Almennt
Skrýtnar sakargiftir
Upphaf þeirrar svokölluðu rannsóknar Geirfinnsmálsins sem hófst í janúar 1976 einkenndist af miklum furðulegheitum. Það gæti að vísu sem best verið eðlilegt að þetta upphaf sé brotakennt, en hitt er verra að brotin passa enganveginn saman. Þau eru miklu fremur í æpandi mótsögn hvert við annað. Nú hafa sakborningarnir í málinu verið sýknaðir af því að hafa átt þátt í dauða Geirfinns, en eftir stendur sakfellingin fyrir að hafa borið rangar sakir á fjóra saklausa menn.

Samkvæmt dómunum frá 1977 og 1980 áttu Sævar Ciesielski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson að hafa komið sér saman um það fyrirfram að bera sakir á þessa menn ef farið yrði að spyrja þau sjálf um Geirfinnsmálið. Eftir sýknudóm Hæstaréttar 2018 hlýtur þessi samsæriskenning að vera endanlega úr sögunni og finna þarf aðrar og haldbærari skýringar á því hvernig hinar röngu sakargiftir urðu til. Við slíka skoðun kemur ýmislegt undarlegt í ljós.

10. febrúar 1976
Þrír þessara saklausu manna voru rifnir upp úr rúminu klukkan sex að morgni mánudaginn 26. janúar 1976, handteknir og færðir í Síðumúlafangelsið þar sem þeir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þetta voru Einar Bollason, Magnús Leópoldsson og Valdimar Olsen. Forsendurnar voru vægast sagt afar hæpnar, en við skulum samt byrja á að skoða aðdragandann að handtöku fjórða mannsins, Sigurbjarnar Eiríkssonar, sem var handtekinn síðdegis 10. febrúar.

Fyrir hádegið þennan dag voru þrjár stuttar yfirheyrslur hespaðar af á tæplega einum og hálfum tíma, tóku sem sagt hálftíma hver, en það er ekki mikið lengri tími en þarf til að vélrita heila síðu með tveimur puttum. Það er athyglisvert að skýrslurnar eru að hluta næstum samhljóða. Sævari, Kristjáni og Erlu voru öllum „sýndar ljósmyndir af 16 mönnum, sem rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt,“ að hafi verið í Dráttarbrautinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Það sem hér er innan gæsalappa er alveg eins í öllum skýrslunum þremur.

Og orðalagið „rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt“ er afar sérkennilegt. Það bendir mjög eindregið til að lögreglan hafi talið sig hafa einhverjar allt aðrar og sjálfstæðar heimildir fyrir atburðum í Dráttarbrautinni. Það er líka sérkennilegt að myndirnar skuli hafa verið svona margar. Það bendir annað hvort til þess að lögreglan hafi talið smyglhringinn mjög stóran, eða þá að menn hafi að einhverju leyti verið að fálma í blindni.

Mikilvægast er þó að myndasýningin afhjúpar þá staðreynd að sakborningarnir þrír vissu ekki hver Sigurbjörn Eríksson var. Hefðu sakborningarnir þekkt hann og nefnt hann að fyrra bragði hefði í rauninni ekki þurft neinar myndir. Í lögregluskýrslunum sem teknar voru fyrir handtökurnar 26. janúar er ekki að sjá að neinar ljósmyndir hafi komið við sögu.

Þessar þrjár stuttu skýrslur 10. febrúar sýna líka mjög einbeittan vilja lögreglunnar til að handtaka Sigurbjörn. Þegar skýrslurnar eru lesnar er fyllilega ljóst að sá sem stýrir yfirheyrslunni er að leita eftir því að fá fullyrt um þátttöku hans. Ákefðin er svo mikil að nánast ekkert annað kemst að.

Þekktu ekki Magnús Leópoldsson
Sigurbirni Víði Eggertssyni, sem sá um skýrslutökuna yfirsást í hamaganginum að hvorki Kristján Viðar né Sævar þekktu Magnús Leópoldsson á mynd í yfirheyrslunum þann 10. febrúar. Og hér þarf að fara örlítið aftur í tímann.

Fyrir handtökurnar 26. janúar hafði Kristján Viðar einungis nefnt nafn Einars Bollasonar. Hann nefndi Magnús Leópoldsson ekki fyrr en 27. janúar, eða daginn eftir að hann var handtekinn. Þá nefndi hann reyndar líka Sigurbjörn og taldi sig þekkja þá báða í sjón. Hann sagðist oft hafa séð Magnús í Klúbbnum og þess vegna þekkja hann í sjón, en var ekki jafn afdráttarlaus varðandi Sigurbjörn. Einmitt þess vegna gat verið ástæða til að yfirheyra hann 10. febrúar og láta hann benda á mynd af Sigurbirni til að taka af öll tvímæli.

En við skýrslutökuna 10. febrúar segist Kristján kannast við nokkrar myndir, þeirra á meðal mynd af Magnúsi Leópoldssyni, „en ekki treystir mætti sér til að fullyrða um hvar eða hvenær hann hefur hitt eða séð þessa menn.“ Lögreglumaður með eitthvað staðbetra en hafragraut milli eyrnanna hefði átt að veita þessu eftirtekt.

Sævar stóð sig ekkert betur en Kristján og þekkti heldur ekki Magnús Leópoldsson. Þegar hér var komð sögu hafði Sævar þó undirritað þrjár skýrslur og nefnt Magnús bæði ákveðið og hikstalaust í þeim öllum. Í þessari yfirheyrslu voru honum, eins og öðrum, sýndar 16 myndir og hann bar kennsl á þrjá menn: Einar Bollason, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson. Hann segist ekkert þekkja Sigurbjörn en fullyrðir að hann hafi farið í bátsferðina. Niðurlag skýrslunnar er svo þetta:

Um þá menn aðra, sem mætta hafa hér verið sýndar myndir af, vill mætti ekkert fullyrða, það er hvort hann hafi í einn eða annan tíma séð þá“. Því má svo skjóta hér inn að í löngu bréfi í tengslum við svonefnda harðræðisrannsókn 1979 getur Sævar nokkrum sinnum um Magnús Leópoldsson en kallar hann alltaf „Magnús Leo Pálsson“. Það ætti því að vera fullkomlega ljóst að Sævar hafði ekki hugmynd um hver maðurinn var.

Erla var yfirheyrð síðust og samkvæmt skýrslunni fullyrti hún að Magnús Leópoldsson, Einar Bollason og Sigurbjörn Eiríksson hefðu verið í Dráttarbrautinni í Keflavík þetta kvöld. Hún kvaðst þekkja fleiri á mynd, þeirra á meðal Valdimar Olsen en nefndi ekki nærveru hans í Dráttarbrautinni. Reyndar fullyrti hún aldrei að hann hefði verið þar.

Þannig var staðan þegar Sigurbjörn Eiríksson var handtekinn. Í þessum þremur hraðsoðnu skýrslum hafði lögreglunni tekist það augljósa ætlunarverk að fá Sævar, Kristján og Erlu til að fullyrða um Sigurbjörn Eiríksson. Á móti kom hins vegar að einungis Erla hafði þekkt Magnús Leópoldsson á mynd og grundvöllurinn þar með hruninn undan gæsluvarðhaldi hans.

Að skilgreina rangar sakargiftir
Í úrskurðum Endurupptökunefndar 2017 er það ekki talið hafa sjálfstæða þýðinu þótt rangar sakargiftir séu endurteknar (Sjá t.d. SMC mgr. 3127) og brot þess vegna talið „fullframið“ þegar ásökun er borin fram í fyrsta sinn. Þetta sýnist vera skynsamleg túlkun. Um leið þarf að líta til þess að fjölmargir fleiri voru nefndir til sögunnar en þeir fjórir sem handteknir voru. Á þeim grundvelli hefði verið unnt að ákæra Sævar, Erlu og Kristján fyrir rangar sakargiftir á hendur samtals fjórtán mönnum en ekki bara fjórum.

Ástæðan fyrir ákærunni var auðvitað sú að þessir fjórir menn höfðu verið hnepptir í gæsluvarðhald. Það virðist ekki hafa þótt taka því að ákæra fyrir rangar sakargiftir á hendur mönnum sem ekki voru handteknir. Út frá því ætti að vera óhætt að álykta að ásakanirnar hefðu þurft að vera komnar fram áður en mönnum var stungið í steininn. Og reyndar hefðu ásakanirnar líka þurft að vera sæmilega trúverðugar til að lögreglan tæki mark á þeim.

Það er þess vegna ómaksins vert að líta á þær röngu sakargiftir sem voru fram komnar fyrir 26. janúar, þegar Einar, Magnús og Valdimar voru handteknir:

Sævar, Erla og Kristján höfðu öll nefnt Einar Bollason. Sævar hafði gefið tvær skýrslur og nefnt Einar í þeim báðum.

Sævar og Erla höfðu bæði nefnt Magnús Leópoldsson

Sævar nefndi Valdimar Olsen í fyrri skýrslunni en dró nafn hans skýrt og ákveðið til baka í þeirri síðari. Erla hafði sagst halda að Valdimar hefði líka verið í Dráttarbrautinni. Þetta er ekki fullyrðing og getur ekki talist fela í sér sakargiftir þar eð allan vafa í því sambandi bar að túlka Valdimar í hag.

Það er sem sagt borðleggjandi að þann 26. janúar 1976 hafði lögreglan enga haldbæra ástæðu til að handtaka Valdimar Olsen og ástæðu til að handtaka Sigurbjörn Eiríksson aflaði lögreglan mjög markvisst með skýrslutökunum 10. febrúar. Magnúsi Leópoldssyni hefði auðvitað átt að sleppa þann sama dag, þegar í ljós kom að hvorki Sævar né Kristján þekktu hann á mynd. Framburður þeirra um Magnús var þar með orðinn algerlega marklaus og um leið var framburður þeirra um aðra orðinn vægast sagt afar hæpinn.

Við þetta bætist að strax daginn eftir, þann 11. febrúar mættu tvær starfsstúlkur í Klúbbnum til skýrslutöku hjá lögreglu og gátu báðar vottað að Magnús hefði verið í Klúbbnum langleiðina framundir miðnætti kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Þær höfðu líka vel haldbæra skýringu á því hvers vegna þær mundu þetta svo vel nærri einu og hálfu ári síðar.

Og þennan sama dag mætti kona Einars Bollasonar líka til rannsóknarlögreglunnar með efnivið í haldgóða fjarvistarsönnun fyrir hann. En lögreglunni virðist ekki hafa dotti í hug að taka neitt mark á fjarvistarsönnunum.

Erlu haldið í stöðugum ótta
Í dómunum er upphaf þessarar rannsóknar rakið til þess að Erla hafði samband við rannsóknarlögregluna í janúar 1976 og kvartaði undan símhringinum sem vöktu henni ótta. Þetta var áður en farið var að bendla hana eða aðra sakborninga við Geirfinnsmálið. Vegna þessarar kvörtunar voru tveir vopnaðir lögreglumenn látnir gæta hennar dag og nótt. Annar lögreglumaðurinn staðfesti þetta löngu síðar. (Skýrsla starfshóps innanríkisráðherra bls. 117). Skýrslur um þessa öryggisgæslu ættu að sjálfsögðu að vera meðal málsgagna en voru aldrei lagðar fram. Það er eðlilegt að spyrja hvernig í ósköpunum standi á því?

Vitni voru almennt kvödd til yfirheyrslu og mættu fyrir eigin vélarafli á skrifstofur rannsóknarlögreglu í Borgartúni. Erla var yfirheyrð sem vitni á þessum tíma og hefði því að öllu eðlilegu verið boðuð til skýrslutöku á skrifstofurnar í Borgartúni.

Í Síðumúlafangelsinu var yfirheyrsluherbergi þar sem fangar voru yfirheyrðir og Erla var yfirheyrð þar. Og hún var vel að merkja ekki bara boðuð, heldur sótt. Þegar Erla átti að mæta í yfirheyrslu minnir verklagið sem sagt fremur á handtöku.

Það er erfitt að ímynda sér aðra skýringu á þessu en að það hafi verið ásetningur lögreglumannanna að vekja beita hana þrýstingi, rétt eins og núverandi lögmaður hennar, Ragnar Aðalsteinsson, hefur þráfaldlega vakið athygli á. Sá sem vill andmæla því, þarf að útskýra hvers vegna eitt tiltekið vitni var sótt til skýrslutöku þegar lögreglu þótti henta og alltaf yfirheyrt í fangelsi.

Tregða Erlu við skýrslugjafir vekur líka athygli. Við yfirheyrslu þann 3. febrúar var henni sýnd mynd af Sigurbirni Eiríkssyni og þá vildi hún ekki fullyrða að hann hefði verið í Dráttarbrautinni. Hvernig gat eiginlega staðið á því ef þetta voru allt samantekin ráð?

Þegar allt þetta er skoðað í samhengi liggur nokkuð ljóst fyrir að lögreglan hafði aldrei neina haldbæra ástæðu fyrir því að handtaka hina fjóra saklausu menn. Og það voru ekki Sævar, Kristján og Erla sem þrýstu á um handtökurnar heldur lögreglan sjálf. Það sést mjög skýrt bæði á færibandayfirheyrslunum 10. febrúar og því hvernig lögreglumennirnir ráðskuðust með Erlu. 

Dómarnir fyrir rangar sakargiftir eru því í fullkomnu uppnámi og ekkert getur verið eðlilegra en a krefjast þess að þeir verði teknir til endurskoðunar og ógiltir.












X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd