Bakgrunnur
Velkomin(n) á
JonDan.is
.
Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.
Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.
Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.
Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".
JonDan.is
Blogg
Greinasafn
Myndir
Hver er maðurinn
Fyrir mitt minni
Minningabrot
Af öðrum toga
Fjölskyldufréttir/Fami...
Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
jan.
01
2019
Stjórnmál
Skítadreifarar á fullri ferð
Um jól og áramót hafa sjálfstæðismenn gjammað hver upp í annan og krafist þess að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segi af sér. Það þarf svo ekki að koma á óvart að Vigdís Hauksdóttir taki undir með sinni ómþýðu rödd. Tilefnið er fremur óljóst, en einna helst er að skilja, að sem borgarstjóri sé Dagur efsti hlekkurinn í ábyrgðarkeðjunni og beri þar með fulla ábyrgð á því ef einhver starfsmanna borgarinnar gerir eitthvað af sér.
Í sinni einföldustu mynd lítur röksemdafærslan svona út: Ef borgarstarfsmaður er fullur í vinnunni og keyrir á ljósastaur, ber borgarstjóranum að segja af sér.
Auðvitað er þetta bull. Það þarf verulega brenglaða siðgæðisvitund til að geta sannfært sjálfan sig um slíka rökfærslu. Enda er tilgangur upphlaupsins tæpast sá að losna við Dag úr stóli borgarstjóra. Það er einfaldlega of fráleitt að krefjast afsagnar hans á þessum grundvelli. Það er nefnilega lágmarksforsenda að hafa gert eitthvað af sér, áður en maður segir af sér embætti.
Tilgangurinn er væntanlega fyrst og fremst sá að sverta Dag í augum almennings. Sjálfstæðismenn eru að vísu talsvert vanari því að standa hinum megin víglínunnar og halda uppi vörnum fyrir sína menn, þegar þeir hafa misboðið almennu siðgæði og jafnvel brotið lög.
En nú þykjast þeir eygja tækifæri til að telja kjósendum trú um að spillingu sé að finna víðar en í Sjálfstæðisflokknum.
- Sko, sjáið þið bara Dag! Hann neitar líka að segja að sér. Hann er ekkert skárri en við!
Slíka mynd er nú reynt að mála upp í hugum kjósenda. Takist það er tilganginum náð.
Í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar er braggamálið upplýst í flestum megindráttum. Skrifstofustjóri SEA (Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar) og sá starfsmaðurskrifstofunnar (verkefnastjóri), sem hafði umsjón braggaverkefnisins á sinni könnu, hafa báðir algerlega brugðist skyldum sínum. Það er tæpast neitt vafamál að þessir starfsmenn hafi gert sig seka um lögbrot. Þeim var ekki heimilt að halda verkefninu áfram án þess að fá fjárveitingar, en gerðu það engu að síður.
Það virðist líka alveg ljóst að bæði borgarritari og borgarstjóri hafi verið leyndir upplýsingum um framgang þessa endurbyggingarverkefnis. Skýrsla innri endurskoðunar upplýsir ekki hvort þetta hafi verið vísvitandi gert, en samkvæmt skýrslunni virðist líklegra að það hafi verið einhvers konar óskiljanlegur trassaskapur.
Það ætti að teljast eðlileg ákvörðun að vísa málinu til lögreglu og kannski verða viðbrögðin við skýrslunni einmitt þau. Það er þó óvíst því viðurlögin virðast ekki harkalegri en svo að starfsmennirnir skuli sæta áminningu og þeir munu báðir vera hættir störfum.
Heiftin í árásunum á Dag B. Eggertsson er slík að maður gæti einna helst ímyndað sér að hann hefði prívat og persónulega einsett sér að eyða 300 milljónum meira til stóð til að endurbyggja gamlan bragga. Það er hiklaust gefið í skyn að Dagur hljóti að hafa vitað af þessu öllu saman.
Og vegna þess að skrifstofustjóri SEA sat iðulega sömu fundi og borgarstjórinn, gera hælbítarnir því skóna að hann hafi stöðugt haldið borgarstjóranum upplýstum um nákvæmlega þetta mál. Sannleikurinn er sá að skrifstofustjórinn virðist ekki einu sinni hafa fylgst með því sjálfur.
Afsagnarkrafan væri skiljanleg ef Dagur hefði orðið uppvís að því að ráða allmarga vini og vandamenn í háar stöður þvert gegn úrskurðum hæfnisnefnda. Og hún gæti verið eðlileg ef hann hefði fengið braggaskýrsluna í hendur mánuði fyrir borgarstjórnarkosningar og ákveðið upp á sitt eindæmi að hún ætti ekki erindi við kjósendur fyrr en eftir kosningar.
Afsagnarkrafan væri fyllilega réttmæt ef Dagur hefði dregið sér nokkur hundruð milljónir og stofnað sinn prívat lífeyrissjóð á valinkunnri bankaleyndareyju. Og hún væri sömuleiðis skiljanleg ef Dagur hefði dílað við utanríkisráðherra um sendiherrastöðu í Bandaríkjunum fyrir forvera sinn í borgarstjórastólnum gegn samsvarandi greiða síðar.
En þannig er málið ekki vaxið. Hvergi í skýrslunni er gerlegt að sjá að Dagur hafi brotið neitt af sér. Þar kemur hins vegar skýrt fram að hann var ekki látinn vita af meiri háttar frávikum frá samþykktri áætlun. Honum var þar með gert ómögulegt að standa undir þeirri formlegu ábyrgð sem vissulega á að hvíla á herðum borgarstjóra.
En þótt borgarstjóri beri formlega ábyrgð, er hann ekki einn um það. Sem framkvæmdastjóri borgarinnar er hann undirmaður borgarráðs og borgarstjórnar. Og þessi röðun ábyrgðarkeðjunnar er alveg skýr á bls. 60 í skýrslu Innri endurskoðunar:
„Borgarráð og borgarstjórn bera hina endanlegu ábyrgð á innra eftirliti með starfsemi borgarinnar.“
Það er sem sé ekki bara borgarstjóri sem ber hina formlegu ábyrgð heldur hver einasti borgarfulltrúi. Það mættu þeir íhuga sem hæst gjamma. Auðvitað ætti að vera sjálfsagt að stjórnmálamenn segi af sér þegar þeir verða uppvísir að óviðurkvæmilegu athæfi, siðleysi eða jafnvel lögbrotum. Formleg ábyrgð felst hins vegar fremur í ábyrgri framkomu. Í þessu tilviki þarf augljóslega að taka nokkuð hressilega til á Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Þá ábyrgð bera allir borgarfulltrúarnir saman og þeir eiga að axla hana í sameiningu og jafnframt í sem bestri samvinnu.
Til baka
Efst á síðu
Skrá athugasemd
Tweet
X
Hafðu samband
Mitt nafn
*
Mitt netfang
*
*
Fyrirspurn
*
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Senda
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda
Mitt nafn
Mitt netfang
Athugasemd / efni:
X
Fréttabréf
Nafn
Netfang
*
*
Skrá netfang
Afskrá netfang
Fréttabréf í boði
Engin fréttabréf í boði.
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn
*
Netfang
Blogg / Vefsíða
Athugasemd
*
Talan í myndinni hér að ofan er
Skrá athugasemd