Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
feb.

25


2018
Almennt
Afgerandi sönnunargögn hunsuð
Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari í Guðmundar og Geirfinnsmálum fer fram á að sakborningarnar verði sýknaðir í nýrri meðferð málanna fyrir Hæstarétti. Það eina sem er merkilegt við þetta er ástæðan. Davíð Þór telur að ekki hafi tekist að sýna nægilega fram á sekt sakborninga til að hún sé hafin yfir skynsamlegan vafa. Í þessu efni gerir hann engan greinarmun á þessum tveimur gömlu sakamálum.



Á þeim er þó talsverður munur. Í Guðmundarmálinu er vissulega til staðar nokkur vafi, en hann snýst ekki um mögulega sekt þeirra sem dæmdir voru, heldur miklu fremur hvort nokkurt vitrænt tilefni hafi verið til að hefja rannsókn á þeim grundvelli sem gert var. Í Guðmundarmálinu er hins vegar engar beinar sannanir að finna. Á hvorugan veginn.

En í Geirfinnsmálinu hafa í meira en 40 ár legið fyrir tvær aðskildar fjarvistarsannanir Sævars Ciesielski. Annarri var á sínum tíma snúið upp í andhverfu sína og hún beinlínis notuð til sakfellingar – svo fjarstæðukennt sem það nú er. Hinni fjarvistarsönnuninni stungu dómararnir undir stól og þýðing hennar í málinu kom ekki í ljós fyrr en í apríl 2016, þegar ég var að leggja lokahönd á bókina „Sá sem flýr undan dýri“ og aflaði þeirra viðbótargagna, sem dómararnir hefðu átt að láta rannsaka í september 1977. En báðar þessar fjarvistarsannanir eru raktar nokkuð ýtarlega í þeirri bók.

Að sýkna vegna skorts á sönnunum
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að gera sér ljóst að forsendur væntanlegs sýknudóms í þessum svokölluðu GG-málum skipta verulegu máli. Almennt má sem sé hugsa sér að sakborningar séu sýknaðir á tvenns konar mismunandi forsendum.

Yfirleitt er ástæða sýknudóms sú að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna sekt sakborningsins nógu fullkomlega. Almennt köllum við þetta sýknu vegna skorts á sönnunum. Slík sýkna felur ekki í sér neina viðurkenningu á sakleysi. Hinn sýknaði getur eftir sem áður hafa framið glæpinn. Sannanirnar voru bara ekki alveg nógu traustar – og vafa skal jú alltaf túlka sakborningi í hag.

Þetta er í rauninni sú gerð sýknu sem Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari, leggur til.

Hin forsendan fyrir sýknudómi felst í því að sakborningi takist hreinlega að sanna sakleysi sitt. Þetta er algengt í bíómyndum en nánast óþekkt í raunveruleikanum af þeirri einföldu ástæðu að rannsókn málsins hefur fyrir löngu leitt slíkar aðstæður í ljós og málið kemur því aldrei fyrir dómara. Sýkna á þessum forsendum felur í sér fullkomna viðurkenningu á sakleysi sakborningsins. Hann dæmist saklaus vegna þess að hann gat ekki með nokkru móti hafa framið glæpinn.

Það er auðvitað út í hött að sýkna sakborninga í Geirfinnsmálinu vegna skorts á sönnunum, þegar fyrir liggja ótvíræðar sannanir um sakleysi þeirra. Þetta virðist þó vera það sem að er stefnt. Hin órofa samstaða manna í réttarkerfinu er eiginlega óskiljanleg, en hún er engu að síður óþægilega áþreifanleg.

Nýtt tækifæri
Nú virðist nokkuð fullvíst að málið verði tekið til meðferðar í Hæstarétti á næstu mánuðum. Það skapar tækifæri til að fá fjarvistarsannanir í Geirfinnsmálinu metnar alveg upp á nýtt.

Þótt þessar tvær aðskildu fjarvistarsannanir, geri út af fyrir sig ekki meira en að sanna endanlega að Sævar Ciesielski fór ekki til Keflavíkur kvöldið sem Geirfinnur Einarsson hvarf, hafa þær engu að síður afgerandi þýðingu fyrir þau þrjú sem áttu að hafa farið með honum í þessa ferð. Erla Bolldóttir var reyndar ekki sakfelld í þessum þætti málsins, en aldrei hafa verið bornar brigður á það að hún og Sævar hafi fylgst að þetta kvöld. Erla fór sem sagt ekki til Keflavíkur ef Sævar fór ekki.

Að því er varðar Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Viðarsson er sjálfkrafa útilokað að þeir hafi farið til Keflavíkur þetta kvöld án Sævars. Guðjón og Kristján Viðar þekktust ekki, en voru hins vegar báðir nákunnugir Sævari. Að Sævar hafi farið í Keflavíkurferðina er þess vegna ófrávíkjanleg forsenda fyrir þáttöku bæði Guðjóns og Kristjáns Viðars í þeirri ferð.

Af þessu leiðir einfaldlega að það hlýtur að verða ein af grundvallarkröfum lögmanna þeirra beggja að báðar fjarvistarsannanir Sævars verði teknar til ýtarlegrar skoðunar og að í báðum tilvikum verði aflað álits sérfræðinga. Að lögmaður afkomenda Sævars leggi fram slíka kröfu er svo sjálfsagt að það þarf ekki einu sinni að taka fram.

Hér á eftir verða fjarvistarsannanir Sævars raktar í sem stystu máli. Þeim eru báðum gerð mun betri skil í bókinni „Sá sem flýr undan dýri“, sem hægt er að nálgast í bókasöfnum (og einmitt þessa dagana reyndar líka á bókamarkaðinum í Laugardal).

Eldur í Heimaey
Vilhjálmur Knudsen kvikmyndagerðarmaður gaf sig fram við lögreglu um miðjan maí 1976 og gaf í framhaldinu skýrslu. Eftir að hafa skoðað vinnudagbók sína gat hann fullyrt að hann hefði hitt Sævar á Kjarvalsstöðum kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Þar var verið að sýna heimildamyndina „Eldur í Heimaey“ eftir þá feðga, Ósvald og Vilhjálm Knudsen. Myndin tók hálftíma í sýningu og var sýnd þrisvar til fjórum sinnum á kvöldi. Sævar hafði boðið móður sinni á Kjarvalsstaði að sjá myndina og notaði tækifærið og kynnti hana fyrir Vilhjálmi. Þetta gæti hafa verið um níuleytið, áleit Vilhjálmur, en gat eðlilega ekkert fullyrt um það. Annað vitni kvaðst líka hafa séð Sævar tilsýndar á Kjarvalsstöðum þetta kvöld.

Almennt á lögregla ekki um margt að velja eftir að slíkur vitnisburður kemur fram. Sævar var einfaldlega á Kjarvalsstöðum þetta kvöld. Framburðir móður hans og yngri systur leiddu til viðbótar í ljós að Sævar og Erla höfðu keyrt móður Sævars heim um tíuleytið. Geirfinnur hvarf laust fyrir eða alveg um hálfellefu.

Meðal málsgagnanna er líka bréf frá Jóni Oddssyni, lögmanni Sævars, og í því er að finna mun ýtarlegri frásögn móður Sævars en í dómskýrslunni. Samkvæmt þeirri frásögn urðu þau of sein og misstu af fyrstu sýningu myndarinnar þetta kvöld. Það stafaði m.a. af því að við Kjarvalsstaði voru öll bílastæði upptekin og á endanum lagði Erla jeppanum í um fimm mínútna göngufjarlægð frá Kjarvalsstöðum.

 En í rauninni þurfti hér enga viðbótarupplýsingar. Dvöl Sævars og Erlu á Kjarvalsstöðum hefði ósköp einfaldlega átt að nægja sem fjarvistarsönnun. Lögreglumennirnir hefðu átt að beina augunum í aðrar áttir.

Tímataflan
En nú vildi svo til að lögreglan var stödd í sjálfheldu. Upphaflega höfðu menn lagt blindan trúnað á þá kjaftasögu að svokallaðir „Klúbbmenn“ væru hinir seku, en sú blaðra sprakk framan í andlitið á þeim. Plan B varð á endanum að klína sökinni á Sævar, Erlu og tvo vini Sævars, þá Kristján Viðar Viðarsson og Guðjón Skarphéðinsson. Og til þess þurftu menn nánast að koma því heim og saman að Sævar og Erla hefðu verið á tveimur stöðum í einu.

Auðvitað var ekki gerlegt að strika Kjarvalsstaðaferðina alveg út, en við frágang skáldsögunnar var hún stytt niður í 40 mínútur (kvikmyndin sjálf tók þó hálftíma í sýningu) og síðan var sett upp hárnákvæm tímatafla, sem átti að sanna að sakborningarnir hefðu verið komnir í Hafnarbúðina í Keflavík og hringt þaðan í Geirfinn Einarsson klukkan tuttugu mínútur yfir tíu.

Frá því er skemmst að segja að þessi tímatafla var mjög langt frá því að geta gengið upp. Biðtímar eru allir allt of stuttir og jafnvel skráðir 0 sekúndur. Þannig virðist móður Sævars hafa verið fleygt út á ferð. Sömuleiðist er helst að skilja að Sævar og Erla hafi á einum stað geislað sig milli bíla.

Það er auðvitað vandalaust að fara yfir þessa tímatöflu og færa hana í það horf að hún geti mögulega staðist, en þá skilar hún sakborningunum ekki til Keflavíkur fyrr en eftir klukkan ellefu um kvöldið. Þetta hefðu dómararnir auðvitað átt að gera, en gerðu ekki.

Þegar öll kurl koma til grafar vinnur tímataflan sem sagt ágætlega með Kjarvalstaðaferðinni og staðfestir endanlega þá fjarvistarsönnun, sem í henni felst. Eftir skoðun tímatöflunnar ætti sú fjarvistarsönnun endanlega að vera hafin yfir vafa.

Nú hljóta lögmenn sakborninganna þriggja að gera kröfu um að dómkvaddir matsmenn verði fengnir til að meta þetta veigamikla atriði upp á nýtt, bæði Kjarvalsstaðaferðina og þau atriði sem henni tengjast og svo tímatöfluna sjálfa.

Niðurstaða slíks mats getur aðeins orðið á einn veg.


Og svo sjónvarpið
En Kjarvalsstaðaferðin er sem sagt ekki eina fjarvistarsönnun Sævars. Hann skrifaði dómurunum bréf í byrjun september 1977, skömmu fyrir upphaf réttahaldanna, og reyndi þar að rifja upp raunverulegar athafnir sínar þetta kvöld. Það var auðvitað ekki hversdagslegur viðburður að hann byði móður sinni á menningarviðburði og það hefur vafalaust auðveldað honum upprifjunina.

Í bréfinu segist Sævar hafa horft á sjónvarpið stundarkorn þetta kvöld eftir að hafa skilað mömmu sinni heim. Og hann lýsir stuttri fréttamynd um rauðvínshneyksli í Frakklandi. Þessi mynd var meðal efnis í erlenda fréttaþættinum „Heimshorn“, sem var á dagskrá sjónvarpsins milli hálfellefu og ellefu þetta kvöld.

Svo vill til að hjá RÚV hefur varðveist listi yfir þær filmur, sem settar voru í geymslu eftir þáttinn og á listanum er einmitt myndin sem Sævar lýsti. Og það vill líka svo til að sumarið 2015 setti AP-fréttastofan þessa fréttamynd á YouTube. Það er sem sagt enn hægt að bera lýsingu Sævars saman við myndina.

Endurupptökunefnd fékk þessi gögn að sjálfsögðu í hendur, en kaus að láta sem þau væru ekki til. Það má beinlínis kalla ótrúlega óheiðarlegt að hunsa þannig veigamiklil sönnunargögn, sem þó voru ný í þeirri merkingu að þau höfðu aldrei áður komið til skoðunar.

Þegar Sævar lýsti myndinni í bréfi til dómaranna voru liðin þrjú ár frá því að hann sá hana og lýsing hans því eðlilega afar ónákvæm. Sævar fór engu að síður rétt með nógu mörg atriði til þess, að það er ógerningur að komast að annarri niðurstöðu en að hann hafi séð myndina.

Fyrir fjórum áratugum viku dómarar Sakadóms Reykjavíkur sér vísvitandi undan því að láta rannsaka þetta lykilatriði í málinu. En fyrst svo vill til að gögnin eru enn til, verður ekki hjá því komist að Hæstiréttur fái réttarsálfræðinga til að bera myndina sjálfa saman við lýsingu Sævars. Og niðurstaða sérfræðinga getur tæpast orðið nema ein.

Sævar var sem sagt að horfa á sjónvarpið á þeim tíma sem hann átti að hafa verið að berja Geirfinn með spýtu í Dráttarbrautinni í Keflavík. Þetta var 1974 og myndbandstæki komu ekki til sögunnar fyrr en alllöngu síðar. Lýsing hans á myndinni er þess vegna ekki neitt minna en fullkomin fjarvistarsönnun.

Og það hlýtur að vera einsdæmi í réttarsögunni að maður sé dæmdur fyrir manndráp þrátt fyrir að hafa ekki bara eina fullgilda fjarvistarsönnun, heldur tvær. En nú verður vonandi ekki lengur hægt að hunsa þessi mikilvægu sönnunargögn lengur.












X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd