Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
okt.

17


2017
Stjórnmál
Þögnin glymur í eyrunum
Síðustu tíu daga eða svo hef ég verið að bíða eftir að sjá fréttina breiðast út og verða að flóðbylgju, sem æddi um alla fjölmiðla og hrópaði framan í mann úr sjónvarpinu, starði ógnþrungnum augum út úr tölvuskjánum og skæri í eyrun jafnskjótt og maður kveikti á útvarpinu.

En ekkert gerðist.

Vissulega létu flestir fjölmiðlar þess getið, eftir að Stundin birti fyrstu fréttina um forsætisráðherra Íslands þann 6. október, að Reykjavik Media, Stundin og The Guardian væru að vinna fréttaefni úr áður óbirtum gögnum frá Glitni banka. En síðan hefur ríkt samfelld þögn, einungis rofin af nýjum fréttum Stundarinnar, sem hafa varpað æ skýrara ljósi á siðferðilega óverjandi fjármálagerninga Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og nákominna ættingja hans.

 En hvers vegna gerðist ekkert? Hvers vegna þögðu allir fjölmiðlar svona lengi? Voru blaðamenn á Stundinni bara orðnir svona illa „nojaðir“ og ég sjálfur þá líklegast einn fárra sem „kóaði“ með þeim?

Svörin við þessum spurningum eru fleiri en eitt, en ekkert þeirra á neitt skylt við annarlegt hugarástand. Ekkert þeirra felur heldur í sér að fréttir Stundarinnar hafi ekki verið nógu merkilegar. Þvert á móti eru þetta þesskonar fréttir, sem í flestum nálægum löndum hefðu logað á öllum forsíðum og nokkurn veginn alveg örugglega leitt til afsagnar forsætisráðherrans strax á öðrum eða þriðja degi.

Helstu ástæður þessarar óskiljanlegu þagnar eru trúlega ótti við vald æðstu ráðamanna og ótti við vald þeirra sem ráða yfir peningunum. Forsætisráðherrann er formaður stærsta stjórnmálaflokksins, þess flokks sem farið hefur með mest af pólitísku valdi í landinu svo lengi sem elstu menn muna. Hann er í stjórnmálum sem fulltrúi auðugrar stórfjölskyldu og flokkurinn sem hann stýrir er ekkert síður hagsmunabandalag auðmanna en stjórnmálaflokkur.

Auðmenn ráða fyrirtækjum og stjórnendur fyrirtækja ákvarða í hvaða fjölmiðlum er auglýst og hverjum ekki. Fjölmiðlar lifa mestanpart á auglýsingum. Auðmenn hafa þannig í hendi sér hvaða fjölmiðlar lifa og hverjir deyja.

Þess vegna skortir íslenska fjölmiðlamenn kjark til að ganga alla leið, spyrja mikilvægustu spurninganna nógu hátt og nógu skýrt og krefjast þess að fá undanbragðalaus svör.

* * *
Svo kastaði slitastjórn Glitnis dálítilli handsprengju inn í þetta mál í gær með því að fá sett lögbann á umfjöllun Stundarinnar.

Samstundis var engu líkara en blaðamannastéttin væri vakin af Þyrnirósarsvefni. Skyndilega var hver fréttin skrifuð á fætur annarri. Og fréttaflutningur hefur haldið áfram í dag. Auðvitað er það fréttnæmt að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skuli banna fjölmiðli að segja ákveðnar fréttir. Það ætti meira að segja að teljast fréttnæmt að það skuli vera hægt.

En fréttum af lögbanninu virðist fækka eftir því sem líður á daginn. Sennilega verður þetta lögbannsmál dáið út af á morgun eða hinn. Og þessar fréttir hafa – að frátekinni einni umfjöllun í Kjarnanum – einvörðungu snúist um lögbannið sjálft.

En lögbannið er ekki meginatriði málsins. Það er vissulega óhugnanlegt dæmi um valdníðslu og þess vegna alveg nógu alvarlegt. Það segir líka ákveðna sögu að svo alvarlegt mál skuli ekki vera kjarni málsins. Kjarni málsins er nefnilega siðferði Bjarna Benediktssonar og sú spurning hvort eðlilegt geti talist að hann sitji bara sem fastast eftir þær uppljóstranir sem Stundin var búin að birta fyrir lögbann.

* * *
Bjarni Benediktsson spilaði með peninga á árunum fyrir Hrun. Hann lagði mikið undir – og hann tapaði stórum fjárhæðum. En hann var í góðum persónulegum tengslum við áhrifamenn í Glitni og þeir bjöguðu honum úr klípunni með aðferðum, sem trúlega ættu að varða við lög, en virðast ekki gera það.

Bjarni tók 50 milljón króna lán hjá Glitni og bar persónulega ábyrgð á því eins og venja er þegar maður fær lán í banka. En þegar í ljós kom að hann myndi þurfa að borga lánið, björguðu starfsmenn bankans honum fyrir horn með því að flytja persónulega ábyrgð hans yfir á einkahlutafélag, sem seinna var bara slitið.

Bjarni fékk líka að taka aðrar 50 milljónir út úr peningamarkaðssjóði, sem þá virðist hafa verið orðinn nokkurn veginn verðlaus. Samtals eru þetta 100 milljónir, sem vel að merkja eru 140 milljónir á verðgildi dagsins í dag. Þótt Sjóður 9 hafi kannski ekki verið orðinn alveg verðlaus er varlega áætlað að hagnaður Bjarna hafi samtals verið um 100 milljónir króna á núgildandi verðlagi.

Klíkuskapur er hið almenna heiti á svona aðferðum. Og sennilega geta flestir verið sammála um að þessir viðskiptagerningar hafi verið fullkomlega siðlausir.

 Þetta gerðist fyrir tæpum áratug, en siðferðiskennd Bjarna Benediktssonar virðist ekki hafa tekið neinum meiriháttar stakkaskiptum til hins betra. Fyrir alþingiskosningarnar í fyrra frestaði hann birtingu tveggja skýrslna, sem voru tilbúnar um mánuði fyrir kosningar. Báðar áttu það sammerkt að niðurstöðurnar komu sér ekki tiltakanlega vel fyrir sitjandi ríkisstjórn og hann sjálfan.

Þess vegna voru skýrslunar tryggilega læstar niðri í skúffu í fjármálaráðuneytinu þar til búið var að kjósa. Það er ekki beinlínis í samræmi við vaxandi kröfur almennings um gagnsæi. Þvert á móti er það beinlínis óheiðarlegt.

* * *
Skyldi ég geta farið í viðskiptabankann minn, beðið um að fá sjálfskuldarábyrgð færða yfir á eignalaust einkahlutafélag, og átt von á að það yrði bara talið sjálfsagt? Nei, auðvitað ekki. Tilhugsunin er svo fjarstæðukennd að þetta hvarflar ekki einu sinni að manni.

En nú vitum við að þetta geta auðmenn fengið gert gegnum klíku. Þökk sé Stundinni, Reykjavik Media og The Guardian.

Þetta er kannski ekki endilega ólöglegt en það er svo gjörsamlega siðlaust, að það er ekki hægt að láta sem ekkert sé. Eftir afhjúpanir Stundarinnar birtist forsætisráðherrann okkur í nýju ljósi. Hann er orðinn uppvís að klíkuskap, siðleysi og margvíslegum ósannindum.

Og um það ættu allir fjölmiðlar að vera bæði að skrifa og spyrja þessa dagana. Vonandi gera þeir það. Gögnin frá Glitni eru til og lögbannið nær aðeins til Stundarinnar og Reykjavik media. Boðvald sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nær heldur ekki til The Guardian í Bretlandi og þar í landi er varla nokkurt yfirvald nógu vitlaust til að taka minnsta mark á valdníðslutilraunum íslenskra siðleysingja.

Kannski sjáum við á allra næstu dögum áframhaldandi umfjöllun um siðferði forsætisráðherrans í Kjarnanum, sjónvarpsfréttum beggja stöðva og í fleiri miðlum. Kannski dettur meira að segja einhverjum í hug að boða til útifundar. Það hefur verið gert af minna tilefni.

Ég skil ekki þessa æpandi þögn, sem glymur í eyrum mér alla daga.


Ein breyting hefur verið gerð á pistlinum. Mér var bent á að hlutafélagið sem tók við sjálfskuldarábyrgð Bjarna hefði ekki verið látið fara í þrot, heldur verið slitið. Þetta atriði hefur verið leiðrétt (18. október 2017. 












X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd