Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
maí

10


2017
Almennt
Erla bar aldrei sakir á Valdimar
Erla Bolladóttir var á sínum tíma ákærð og dæmd fyrir rangar sakargiftir á hendur fjórum mönnum í tengslum við Geirfinnsmálið. Ný skoðun á yfirheyrsluskýrslum leiðir nú í ljós að á einn þessara manna bar hún aldrei beinar sakir. Það var því ekkert lögmætt tilefni til að ákæra hana og dæma fyrir þetta atriði.

Vegna þeirra lesenda, sem ekki eru sæmilega vel kunnugir Geirfinnsmálinu, er rétt að taka fram að þær röngu sakargiftir, sem hér um ræðir, fólust í því að ljúga því að rannsóknarlögreglunni, að svonefndir „fjórmenningar“, sem að ósekju sátu í gæsluvarðhaldi í 90–105 daga síðari hluta vetrar og fram á vor 1976, hefðu verið í Dráttarbrautinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf og jafnvel átt þátt í að svipta hann lífi.

Í hæstaréttardómnum frá 1980 er einungis vísað til dóms sakadóms Reykjavíkur og hann staðfestur. En í héraðsdómnum (dómi sakadóms) eru þessar röngu sakargiftir vandlega tíundaðar og sundurliðaðar allt eftir því hver taldist hafa borið rangar sakir á hvern og hvenær. Röðin kemur að Erlu á bls. 145 í prentútgáfu Hæstaréttardóma frá 1980, þar sem dómur sakadóms er prentaður í heild á eftir hæstaréttardómnum. Þar stendur þetta:

Ákærðu Erlu Bolladóttur er gefið að sök að hafa borið þessar sakir á sömu menn sem hér segir: ... d) Á Valdimar Olsen fyrir rannsóknarlögreglu 3. febrúar og 1. september

Það var misjafnt hversu oft sakborningar voru álitnir hafa logið upp á hvern og einn, en hér eru bara tvær dagsetningar og því einfalt að skoða textann. Þegar skýrslurnar eru lesnar, kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist.

3. febrúar 1976
Yfirheyrslan yfir Erlu þann 3. febrúar er tvær vélritaðar síður. Erla rekur þar Keflavíkurferðina í grófum dráttum og nefnir þá menn sem þarna áttu að hafa verið samankomnir: Magnús Leópoldsson, Sævar Ciesielski og Kristján Viðar Viðarsson. Síðan er þetta haft eftir henni í frásögninni:

Þá man ég eftir Einari bróður mínum og Valdimar Olsen held ég að hafi einnig verið staddur þarna.“

Þetta er ekki fullyrðing. Í skýrslunni er heldur engin skýring á þessari ágiskun. Kannski sá Erla manninn ekki nógu vel til að geta fullyrt neitt, en hún gæti líka allt eins haft það eftir einhverjum öðrum að Valdimar hefði verið þarna. Skýrslan er skráð eins og bein frásögn Erlu sjálfrar, en við vitum auðvitað mætavel að þannig verða engar lögregluskýrslur til. Skrásetjarinn þarf alltaf að spyrja einhvers, en hér er engra spurninga getið og við getum því meira að segja leyft okkur að giska á að lögreglumaðurinn hafi nefnt Valdimar að fyrra bragði.

En meginatriðið er þetta: Erla fullyrti ekki í þessari skýrslu að hún hefði séð Valdimar Olsen í Dráttarbrautinni í Keflavík. Af því leiðir ósköp einfaldlega að það er ógerningur að halda því fram að hún hafi í rauninni borið á hann neinar sakir.

Með lögfræðilegum hártogunum mætti kannski kalla þetta vafamál. En vafa ber alltaf að túlka sakborningi í hag og það gildir ekki aðeins um dómara, heldur líka saksóknara.

Þess vegna var saksóknara beinlínis óheimilt að ákæra Erlu fyrir rangar sakargiftir á þessum grundvelli og dómararnir hefðu að lágmarki átt að lesa þessa skýrslu áður en þeir dæmdu hana seka.

10. febrúar 1976
Í samhenginu vekur það sérstaka athygli að Erla var yfirheyrð aftur viku síðar, þann 10. febrúar. Þá voru henni „sýndar ljósmyndir af 16 mönnum, sem rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt, að hafi verið viðriðnir atburðina við Dráttarbraut Keflavíkur og bátsferð þaðan þann 19. nóv. 1974.“

Erla reyndist geta borið kennsl á alls 9 menn. Hún sagði fjóra þeirra örugglega hafa verið í Dráttarbrautinni, en Valdimar Olsen var ekki meðal þeirra. Erla þekkti Valdimar vissulega á einni myndinni, en nefndi hann ekki meðal þeirra, sem verið hefðu í Dráttarbrautinni.

Þótt við gefum lögreglunni allan þann slaka sem mögulegt er, verður ekki komist hjá því að álykta að þetta dragi talsvert úr vægi þess að Erla skyldi viku fyrr hafa haldið að Valdimar hefði verið í Dráttarbrautinni.

Þetta bætir sem sé ekki málstað ríkissaksóknarans og dómaranna.

1. september 1976
Síðari yfirheyrslan, sem vísað er til í ákæru og dómi fór fram 1. september 1976, en þá hafði Erla setið í gæsluvarðhaldi frá 4. maí um vorið, þegar hún játaði að hafa sjálf skotið Geirfinn. 

Í skýrslunni er löng lýsing á Keflavíkurferðinni og atburðunum í Dráttarbrautinni og Erla nefnir nokkra menn sem hún fullyrðir að hafi verið á staðnum og lýsir því hvernig gengið var í skrokk á Geirfinni, þar til hann lá á jörðinni. Svo segir Erla að Sævar hafi komið til sín, þar sem hún stóð skammt frá. Síðan stendur þetta í lögregluskýrslunni:

Sævar sagði við mig að þeir væru þarna allir og nefndi þá Valdimar Ólsen Sigurbjrön[svo], Eiríksson, Magnús Leópoldsson, Rolf Jóhansen, Guðlaug Bergmann, Jósafat Arngrímsson og Einar bróður minn.“

Sem  sagt: Þann 1. september hafði Erla nafn Valdimars eftir Sævari. Nafn hans var hluti langrar nafnarunu, þar sem m.a. komu fyrir nöfn nokkurra þjóðþekktra manna. Að hafa nafn eftir öðrum getur ekki talist trúverðugur vitnisburður og auðvitað fráleitt að byggja ákæru og dóm um rangar sakargiftir á slíkum framburði. En það er svo aftur á móti athyglisvert að framar í þessari skýrslu fullyrti Erla að hafa hafa séð Guðlaug Bergmann eigin augum. Hún var samt ekki ákærð fyrir rangarsakargiftir á hendur honum.

En það er einfaldlega enn vitlausara að ákæra Erlu fyrir þennan framburð en frásögnina 3. febrúar. Niðurstaðan er skelfilega einföld. Það var aldrei nein lögmæt ástæða fyrir þessari ákæru á hendur Erlu.

Fjórtán menn bornir röngum sökum
Við lestur þeirra fjölmörgu skýrslna, þar sem þau þrjú, Erla, Sævar og Kristján Viðar, báru rangar sakir á menn, fær ekki dulist að málatilbúnaðurinn um rangar sakargiftir var aldrei annað en furðulegur hrærigrautur, samsettur úr margvíslegu bulli. Þau voru á endanum aðeins ákærð fyrir að bera rangar sakir á fjóra menn, en í skýrslunum eru nefnd miklu fleiri nöfn og af ýmsum ástæðum er talsvert rökréttara að gera ráð fyrir að a.m.k. mörg þeirra hafi fremur verið komin frá lögreglunni en sakborningunum.

Samtals komu fjórtán menn við sögu í þessum lögregluskýrslum. Um suma þeirrar var að vísu ekki fullyrt, en miðað við aðferðafræði saksóknara og dómara að því varðar sakargiftir Erlu á hendur Valdimar Olsen, hefði átt að ákæra og dæma fyrir rangar sakargiftir á hendur fjórtán mönnum en ekki fjórum.

 Og það má líka sem best spyrja sig hvers vegna einmitt þeir fjórir, sem látnir voru dúsa í gæsluvarðhaldi mánuðum saman, urðu fyrir valinu en enginn annar.

Óskiljanleg niðurstaða
Í nýlegum úrskurði endurupptökunefndar eru rakin meginatriðin úr þeim lögregluskýrslum, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni. Engu að síður kemst nefndin að þeirri niðurstöðu (mgr. 2498) að brot Erlu gegn Valdimar hafi verið „fullframið“ í yfirheyrslunni þann 3. febrúar. Þetta er auðvitað óskiljanleg niðurstaða.

Þegar ljóst er að Erla bar aldrei sakir á Valdimar Olsen með nægilega skýrum hætti til að það væri lögmætt að byggja á því ákæru, hlýtur að mega gera ráð fyrir því að hún leiti réttar síns fyrir héraðsdómi til að fá þessari niðurstöðu endurupptökunefndar hnekkt.

 Fáist þetta atriði ákærunnar um rangar sakargiftir tekið upp aftur, er um leið búið að stinga eitt lítið títuprjónsgat á ákæruliðinn í heild. Og reynslan sýnir að eftir það er loftið yfirleitt fljótt að leka úr blöðrunni.

En reyndar er full ástæða til að kæra miklu fleiri atriði í úrskurði endurupptökunefndar. Meira um það síðar.


Þessi grein birtist fyrst í Stundinni, í prentútgáfunni 4. maí og á vefnum 9. maí 2017












X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd