Bakgrunnur
Velkomin(n) á
JonDan.is
.
Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.
Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.
Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.
Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".
JonDan.is
Blogg
Greinasafn
Myndir
Hver er maðurinn
Fyrir mitt minni
Minningabrot
Af öðrum toga
Fjölskyldufréttir/Fami...
Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
apr.
01
2017
Almennt
Rangar sakargiftir afsannaðar
Það er sennilega ógerningur að færa fram fullkomlega lögfulla sönnum þess að lögreglan hafi beinlínis knúið Sævar Ciesielski, Erlu Bolladóttur og síðar líka Kristján V. Viðarsson til að bera fjóra menn röngum sökum með blekkingum og gríðarlegum þrýstingi. Þegar allt er skoðað er þó alveg augljóst að það var þetta sem gerðist.
Eftir úrskurði enduupptöknefndar vegur þessi stórfurðulegi ákæruliður salt á hárfínni línu og eina spurningin er sú hvernig eigi að túlka vafann. Vafann skal alltaf túlka sakborningi í hag í sakamálum, en ákæruliðurinn um rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu er ekki lengur sakamál. Hæstiréttur kvað upp dóm sinn 1980 og dómar Hæstaréttar eru endanlegir.
Og þar eð endurupptökunefnd hafnaði endurupptöku þessa eina ákæruliðar, hvílir sönnunarbyrðin öfugu megin. Nú hvílir sú skylda á Erlu, Kristjáni og afkomendum Sævars að sanna sakleysi þeirra. Þetta er augljóslega út í hött.
Þegar ákveðið hefur verið að rétta að nýju í Geirfinnsmálinu, dugar ekki að dómstólar fjalli bara um hluta þess. Allir ákæruliðirnir þurfa að fylgjast að. Allt annað er út í hött.
Nýr sektardómur yfir Erlu
Til að skýra fáránleikann skulum við draga upp litla sviðsmynd. Endurupptökunefnd hefur þegar ákveðið að réttað verði í Guðmundarmálinu að nýju. Varðandi Guðmundarmálið er miklu meira en nóg tíundað í úrskurðum nefndarinnar til að við getum kallað það fyrirséð að niðurstaðan verði sýkna.
Sýknudómur í Guðmundarmálinu kemur ekki til með að byggjast á skorti á sönnunum. Í því máli eru í rauninni ekki lengur nein vafaatriði sem þarf að túlka sakborningum í hag. Þvert á móti er beinlínis útilokað að málsatvik hafi verið neitt í líkingu við það, sem lýst var í dómum Sakadóms Reykjavíkur og Hæstaréttar á sínum tíma. Sýkna sakborninganna verður eiginlega að teljast sönnuð.
Í slíkri niðurstöðu felst ótvíræð yfirlýsing um að Erla Bolladóttir hafi gerst sek um rangar sakargiftir í Guðmundarmálinu líka. Fyrir liggur eiðsvarinn vitnsburður hennar um að hafa séð Sævar og Kristján bera lík út úr kjallaraíbúðinni að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974. Erla hefur fyrir löngu dregið þennan vitnisburð sinn til baka og þar með liggur í rauninni fyrir játning hennar um rangar sakargiftir í Guðmundarmálinu.
Um leið og Sævar og Kristján verða sýknaðir, fylgir sem sagt óhjákvæmilega með í pakkanum að Erla hafi borið þá röngum sökum. Eins og málatilbúnaðurinn hafi ekki verið nógu vitlaus fyrir.
Engin samantekin ráð og engin ástæða
Sævar, Erla og Kristján voru öll dæmd fyrir að hafa logið upp á Einar Bollason, Valdimar Olsen, Magnús Leópoldsson og Sigurbjörn Eiríksson. Svo mikið er satt og rétt, að þau undirrituðu öll skýrslur þess efnis. Í dómunum kemur líka fram að hafi verið samantekin ráð, að bendla þessa menn við hvarf Geirfinns EF farið yrði að spyrja þau sjálf út í málið.
Þetta litla EF skiptir hér öllu máli. Þegar fyrir liggja tvær sjálfstæðar fjarvistarsannanir og að auki fullkomin sönnun þess að sakborningar gátu ekki með nokkru móti komist til Keflavíkur fyrr en löngu eftir að Geirfinnur var horfinn, er augljóst að þetta litla EF var aldrei til staðar. Þetta unga fólk vissi ekkert um hvarf Geirfinns og getur þess vegna ekki hafa borið sig saman um að bera sakir á tiltekna menn.
Þar með eru hin samanteknu ráð úr sögunni. Hitt er líka ljóst að ekkert þeirra þriggja hafði nokkra minnstu ástæðu til að ljúga neinu upp á saklausa menn. Nú vitum við auðvitað að í yfirheyrsluskýrslum, sem þau skrifuðu undir, eru bornar sakir á miklu fleiri en þá fjóra sem voru handteknir. Það er alvarlegt mál að ljúga glæpum upp á saklaust fólk og þess vegna hefði mátt ætla að þau hefðu verið ákærð og dæmd fyrir að bera sakir á hvern einasta mann, sem nefndur er á nafn í þessum skýrslum. Það er fyllilega réttlætanlegt að spyrja hvers vegna það hafi ekki verið gert.
Nú skulum við sem sagt hafa tvennt í huga: Annars vegar höfðu Sævar, Erla og Kristján enga ástæðu til að bera rangar sakir á nokkurn mann. Hins vegar báru þau (samkvæmt lögregluskýrslunum) sakir á miklu fleiri en þá fjóra sem voru handteknir og taldir upp í ákærunni.
Þegar haft er í huga hversu illa þessum röngu sakargiftum bar saman í upphafi, verður vægast sagt afar grunsamlegt að Sævari, Erlu og Kristjáni skyldi einna helst bera nokkurn veginn saman um nákvæmlega þessa fjóra menn. Þetta er ekkert minna en mjög ákveðin vísbending um að rannsóknarmennirnir sjálfir hafi viljað fá þessi fjögur nöfn skjalfest.
Játningar afsannaðar
Í öllum meginákæruliðunum þremur byggðust dómarnir á játningum sakborninganna. Þetta gildir líka um játningarnar varðandi rangar sakargiftir.
Þegar tekist hefur að sanna, að Keflavíkurferðin var aldrei farin og að sakborningarnir geta þar af leiðandi ekki hafa borið saman ráð sín um að ljúga sökum upp á aðra, verða tvær játningar um leið að teljast endanlega afsannaðar. Sem sé játningar Sævars og Erlu um að þetta hafi verið samantekin ráð.
Það ætti eitt út af fyrir sig óhjákvæmilega að hafa áhrif á það mat, sem lagt er á aðra framburði sakborninganna, sér í lagi þó játningar um að hafa logið upp á saklausa menn og þær lögregluskýrslur, þar sem hinar röngu sakargiftir eru skjalfestar.
Og ef við getum slegið því föstu að játningarnar um samantekin ráð teljist beinlínis afsannaðar, hlýtur það að vera afar gild ástæða til að endurupptaka þennan ákærulið. Það verður nefnilega ekki annað ráðið af dómi Hæstaréttar en að einmitt hin samanteknu ráð geti hafa verið virt Sævari og Erlu til refsiþyngingar.
Endurupptökunefnd sleppti því algerlega að fjalla um þetta í úrskurðum sínum og góð spurning hvort það geti ekki talist mjög alvarlegur ágalli á úrskurðunum.
Einfaldar sannanir en þykkir múrar
Fyrir fjörutíu árum ríkti órofa samstaða innan íslenska réttarkerfisins. Innan þessa kerfis þéttu menn raðirnar og stóðu saman hver öðrum til varnar. Þess var vandlega gætt að ekki félli minnsti blettur á mannorð nokkurs starfsmanns þessa kerfis. Því miður verður ekki séð að þetta ástand hafi tekið stórum breytingum.
Þótt endurupptökunefnd hafi í nýlegum úrskurðum fallist á margvíslega gagnrýni á málsmeðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála fyrir fjörutíu árum, virðist hún nánast einvörðungu gera það á þeim forsendum að mistök hafi verið gerð. Nefndin útilokar algerlega þann möguleika að nokkur maður innan réttarkerfisins hafi framið lögbrot. Þannig reisir hún í rauninni þykka varnarmúra umhverfis réttarkerfið.
Sannleikurinn er hins vegar sá að menn brutu lög. Það er tiltölulega einfalt að sanna og meira að segja unnt að sanna nógu fullkomlega til að ákveðin lögbrot verði að teljast hafin yfir allan vafa. Og til að réttlætið nái loksins fram að ganga er nauðsynlegt að þetta verði viðurkennt. Þessir þykku varnarmúrar eru byggðir á lygi og hana þarf að afhjúpa.
Sú augljósa skýring á uppruna hinna röngu sakargifta, að rannsóknarmenn hafi átt upptökin að þeim, hvílir á þeirri grundvallarforsendu að þeir hafi brotið lög. Og meðan það er fortakslaus og nánast trúarlegur grundvöllur allrar málsmeðferðar að fulltrúar réttarkerfisins brjóti ekki lög, verður örðugt að fá viðurkennt fyrir dómi, að það hafi nú þrátt fyrir allt gerst í þessu tilfelli.
Erla átti að sjálfsögðu ekki frumkvæðið að því að ljúga sök upp á Sævar og Kristján í Guðmundarmálinu. Og hvorki hún, Sævar né Kristján áttu frumkvæðið að röngum sakargiftum í Geirfinnsmálinu. Þau voru öll fengin til að undirrita þessar skýrslur á fölskum forsendum. Það var logið að þeim og þau voru blekkt. Bæði Sævari og Erlu var talin trú um að hún væri í lífshættu. Þetta er svo skelfilega einfalt að það er beinlínis fáránlegt að viðurkenna það ekki umbúðalaust.
En meðan ákæruliðurinn um rangar sakagiftir fæst ekki endurupptekinn, er sönnunarbyrðin á röngum stað. Hún á heima hjá ákæruvaldinu. Hvar annars staðar?
Til baka
Efst á síðu
Skrá athugasemd
Tweet
X
Hafðu samband
Mitt nafn
*
Mitt netfang
*
*
Fyrirspurn
*
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Senda
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda
Mitt nafn
Mitt netfang
Athugasemd / efni:
X
Fréttabréf
Nafn
Netfang
*
*
Skrá netfang
Afskrá netfang
Fréttabréf í boði
Engin fréttabréf í boði.
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn
*
Netfang
Blogg / Vefsíða
Athugasemd
*
Talan í myndinni hér að ofan er
Skrá athugasemd