Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
des.

17


2016
Almennt
Ólíkt hafast menn að
Á Norður-Írlandi hafa nú tveir fyrrum hermenn verið ákærðir fyrir morð, sem þeir frömdu fyrir 44 árum, þann 15. apríl 1972, þegar skutu óvopnaðan, 25 ára mann með fjölmörgum skotum á stuttu færi. Mennirnir tveir eru nú 65 og 67 ára og því kannski ekki seinna vænna. Á Íslandi humma menn ennþá fram af sér að taka til endurskoðunar tvö 42 ára gömul mannshvarfsmál og sýkna fólk, sem allir vita að var dæmt saklaust. Það lá reyndar fyrir þegar dómarnir voru kveðnir upp.

Svo gerólík sem þessi morðmál eru, eiga þau dálítið sameiginlegt. Stóra samasemmerkið milli Íslands og Norður-Írlands snemma á áttunda áratugnum er þetta: Yfirvöld báru ekki snefil af virðingu fyrir réttlæti og sannleika. Í báðum tilvikum varð niðurstaðan einfaldlega sú, sem hentaði yfirvöldum.

Joe McCann var meðlimur í IRA, Írska lýðveldishernum, og hafði tekið þátt í vopnuðum átökum. Hann tilheyrði hins vegar friðsamari armi samtakanna og var óvopnaður þennan dag. Sagnir herma að yfirmönnum IRA hafi verið ljóst að líf hans var í hættu og honum hafi verið skipað að forða sér suður yfir landamærin og til Dublin, en hann hafi virt þær skipanir að vettugi.

Þann 15. apríl sást til hans á götu í Belfast og það þarf ekki endilega að draga í efa að ætlunin hafi verið að handtaka hann, en hann hafi lagt á flótta. Það sem vitað er fyrir víst, er að hann var skotinn á götuhorni og að tíu skothylki fundust rétt hjá líkinu, sem bendir til að hann hafi verið skotinn á mjög stuttu færi. Og sýnir líka að skotfærin voru ekki spöruð.

Að verki voru þrír hermenn. Málið lá sem sagt nokkuð ljóst fyrir. Ekki þurfti að gera neina leit að líkinu. Skothylkin lágu allt í kringum það. Og 1972 var orðið fremur einfalt að tengja saman skot og byssur. Að sjálfsögðu var málið rannsakað. Hvað annað?

Herinn rannsakaði málið sjálfur og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra tiltekinn einstakling. Kannski getur þessi niðurstaða verið rökrétt, ef erfitt er að ákvarða nákvæmlega hver þessara þriggja skaut banaskotinu.

Slíkt vafðist ekki fyrir Íslendingum fimm árum síðar. Árið 1977 þótti sannað að Guðmundur Einarsson hefði látið lífið í átökum við þrjá menn. Og sömuleiðis þótti sannað að Geirfinnur Einarsson hefði látið lífið í átökum við þrjá menn. En íslensk yfirvöld gerðu sér enga rellu yfir því að ógerlegt væri að ákvarða hver hefði átt banahöggið. Hér voru allir þrír dæmdir sameiginlega sekir.

Í því sambandi skipti engu máli, þótt ekkert lík hefði fundist. Ekki heldur að ekki skyldi finnast eitt einasta sönnunargagn. Jafnvel ekki að þær vísbendingar, sem þó fundust, skyldu allar benda í öfuga átt.

Nú hafa yfirvöld á Norður-Írlandi ákveðið að ákæra tvo af hermönnunum þremur. Sá þriðji sleppur blessunarlega því hann er dauður sjálfur. Það mætti kalla kaldhæðni örlaganna ef niðurstaðan verður samkvæmt hinni íslensku fyrirmynd og hermennirnir dæmdir sameiginlega sekir.

Hér á Íslandi er málið að sumu leyti einfaldara. Það er sem sé fyllilega ljóst að ekkert þeirra, sem dæmd voru, tengdist mannshvörfunum tveimur á nokkurn hátt. Og var ljóst þegar dómarnir voru kveðnir upp.

Þegar öll kurl koma til grafar, er það óheiðarleiki og óréttlæti yfirvalda sem stingur í augu í báðum tilvikum. Norður-Írar hafa í bráðum tvo áratugi unnið að því að ná sáttum við sjálfa sig og þessi ákæra er vafalaust liður í því ferli.

Við þurfum líka sátt. Endurupptökunefnd kveður upp úrskurð í Guðmundar- og Geirfinnsmálum eftir áramót. Sá úrskurður getur ekki orðið nema á einn veg. Mögulega gæti endanlegur sýknudómur komið á 40 ára afmæli sektardómsins.

Það er auðvitað 40 árum of seint. En gæti samt sem áður fólgið í sér vissa sátt.


Frásögn Telegraph er að finna hér
Um Joe McCann er fjallað á Wikipediu, en án tilvitnana og því mögulega nokkuð einhliða.

Hin íslensku Guðmundar- og Geirfinnsmál eru aftur á móti krufin til mergjar í þessari bók, sem fæst í bókabúðum og svo auðvitað hjá útgefanda á slóðinni myrun.is.













X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd