Bakgrunnur
Velkomin(n) á
JonDan.is
.
Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.
Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.
Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.
Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".
JonDan.is
Blogg
Greinasafn
Myndir
Hver er maðurinn
Fyrir mitt minni
Minningabrot
Af öðrum toga
Fjölskyldufréttir/Fami...
Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
nóv.
23
2014
Almennt
Barnsfæðing á Tannstöðum fyrir 100 árum
Þennan dag fyrir 100 árum, 23. nóvember 1914, fæddist faðir minn. Afi gæti hafa farið með litlu dæturnar sínar tvær, þær Lollu og Lóu út í fjárhús á meðan. Það var nefnilega ekki fyrr en heilli kynslóð síðar, sem það fór að tíðkast að konur færu á sjúkrahús ti l að fæða börn. Og reyndar þóttu fæðingar í heimahúsum ekkert tiltökumál vel fram yfir miðja öldina.
Það getur verið nokkuð snúið að reyna að sjá fyrir sér aðstæðurnar svo löngu síðar. Svo mikið veit ég þó, að á Tannstöðum stóð tiltölulega nýlegt timburhús, byggt nálægt tveimur áratugum fyrr. Svo síðla hausts hefur afi verið búinn að ganga frá bátnum fyrir veturinn. Hrútar hafa verið komnir á hús, en sennilega ekki fleira fé, þótt hugsanlega hafi verið búið að taka lífgimbrar inn til að kenna þeim átið.
Sláturtíðin var að baki, búið að ganga frá saltkjöts- og súrmetistunnum að ógleymdu öllu því kjöti sem sett var í reyk. Og þorskafla haustsins hefur afi verið búinn að fletja og hengja upp. Þannig hefur verið búið að ganga frá matarbirgðum vetrarins. Nýmeti yrði ekki aftur á borðum fyrr en í apríl, þegar fyrsti rauðmaginn gengi inn á Hrútafjörð og bátskelinni yrði aftur ýtt á flot.
Inni í bænum fæddist drengur. Sjálfsagt hefur hann hvorki verið mældur né veginn. Þess var enn langt að bíða að tölfræðin héldi innreið sína í daglega tilveru Íslendinga. En hann fékk nafnið Daníel og börn ungu hjónanna á Tannstöðum voru nú orðin þrjú. Móðirin, Sveinsína Benjamínsdóttir, var nýlega orðin 29 ára og faðirinn, Daníel Jónsson, varð 36 ára um sama leyti og rauðmaginn kom, vorið eftir.
Fjórða barnið, Inga, bættist við rúmum 14 mánuðum síðar, snemma í febrúar 1916, en svo varð fjögurra ára bið eftir yngsta barninu, dreng sem fæddist 6. apríl 1920. Hann var skírður Jón eftir föðurafa sínum, þótt mig gruni að nafngiftin hafi í aðra röndina verið örlítið langsóttari.
Dálitlar vangaveltur um nöfn
Kannski má velta því fyrir sér hvort það hafi verið tilviljun að dæturnar skyldu allar skírðar tveimur nöfnum, en drengjunum látið duga eitt. Elst var Rósa Sólveig (f. 7. maí 1911). Amma hefur látið þessa elstu dóttur sína heita eftir móður sinni, Rósu Solveigu Daníelsdóttur, sem dó af barnsförum, 39 ára gömul árið 1890, þegar amma var enn ekki orðin 5 ára.
Afi hefur ráðið nafni næstelstu dótturinnar, Ólínu Valgerðar (f. 17.sept. 1912), og látið hana heita í höfuðið á móður sinni, Ólínu Valgerði Ólafsdóttur. Það getur hins vegar verið álitamál hvort pabbi var skírður beint eftir afa sjálfum, eða hvort móðirin hafi viljað láta drenginn heita í höfuðið á afa sínum, Daníel Markússyni. En sjálfsagt hefur þetta tvennt farið ágætlega saman.
Hálfpartinn grunar mig að amman á Tannstöðum, Ólína Valgerður Ólafsdóttir, gæti hafa haft einhver afskipti af nöfnum yngri barnanna. Fullt nafn Ingu (f. 10. feb. 1916) var Ólafía Ingibjörg og virðist annars vegar sótt í nafn Ólafs Björnssonar, föður Ólínu gömlu, en hins vegar til systur hennar, Ingibjargar Ólafsdóttur, sem var 5 árum eldri en Ólína og dó 11 ára gömul, árið 1860. Svo mikið er víst að sjálf hafði Ólína látið dóttur sína heita nákvæmlega þessu nafni, Ólafía Ingibjörg, en sú dóttir lifði aðeins í 10 daga í maí árið 1884.
Og yngsti bróðirinn, Jón (f. 6. apríl 1920) hefur sennilega ekki einungis heitið eftir föðurafa sínum, Jóni Brandssyni, heldur grunar mig ósjálfrátt að amman Ólína hafi ekkert síður haft í huga bróður sinn, Jón Ólafsson, sem drukknaði í Hrútafirði tæplega tvítugur árið 1872. Ólína, langamma mín, var nokkuð ákveðin kona og ég man að pabbi orðaði það svo, að hún hefði verið „erfitt gamalmenni“.
Frostavetur og snjóþyngsli
Það var nokkuð hart í ári fram eftir búskaparárum afa og ömmu á Tannstöðum. Þegar ártalið 1918 er nefnt nú á dögum, er trúlega tvennt eða þrennt sem kemur strax upp í huga flestra Íslendinga: Spænska veikin, fullveldi Íslands og lok fyrri heimsstyrjaldar. Í bernsku minni var það hins vegar fyrst og fremst „frostaveturinn mikli“, sem fólk tengdi þessu ártali.
Og það segir sína sögu. Langt fram á 20. öld áttu Íslendingar allt sitt undir veðurfarinu. Það var veðurfarið sem réði úrslitum um örlög fólks og fénaðar, réði því hvort fólk lifði eða dó.
Veturinn sem Jón föðurbróðir minn fæddist, var líka frostavetur. Og afar snjóþungur. Þegar ég bað pabba að rifja upp fyrir mér bernskuminningar sínar, nokkrum árum áður en hann dó, tilgreindi hann einmitt fæðingu yngri bróður síns í byrjun apríl 1920, sem eina af fyrstu skýru minningum sínum.
Afi fór með þau systkinin, öll fjögur, út í fjárhús og þar biðu þau, þangað til boð komu heiman úr bænum, um að fæddur væri drengur. Pabbi sagði sér enn minnisstætt, að fjárhúsin hefðu verið komin algerlega á kaf í snjó. Niður að fjárhúsdyrunum hafði afi mokað tröppur í snjóinn og gengið þannig frá, að hann setti hlera ofan á. Hlerinn sjálfur var bersýnilega settur til að ekki þyrfti að moka snjónum aftur upp úr tröppunum eftir næstu hríð. Og auðvitað hefur afi þurft að fergja hlerann til að hann fyki ekki.
Mínar fyrstu minningar
Pabbi hefur ekki verið nema 36 ára þegar ég man fyrst greinilega eftir honum. Af einhverjum ástæðum hafa varðveist í kollinum á mér nokkuð sundurlaus minningabrot allt frá sumrinu 1951, þegar ég var tveggja ára. Það sumar tók pabbi gamla hrífu, stytti skaftið um svo sem helming og sagaði líka af hausnum báðum megin. Svo útskýrði hann fyrir mér að ég þyrfti að raka til að heyja fyrir kindinni minni. Kindur lifa nefnilega veturinn ekki af nema til sé nóg af heyi handa þeim.
Ég man auðvitað vel hvernig hann leit út á þessum tíma, þótt ég geti eðlilega ekki ársett slíkar minningar. En mér er sérstaklega minnistætt hvernig hann greiddi þvert yfir skallann. Svo ungum þótti mér nefnilega dálítið skrýtið að sjá þegar húfan fauk af honum og allt hárið reyndist bara vera rótfast öðru megin á höfðinu. Ofan á höfðinu uxu engin hár.
Og ég hafði auðvitað orð á þessu.
Pabbi útskýrði fyrir mér að karlmenn yrðu sköllóttir með aldrinum. Ég festi þetta í minni eins og hvern annan lærdóm. Þetta var sem sagt ekkert skrýtið. Pabbi var bara gamall. Hann var meira en 30 ára. Og það var örugglega mikið.
Ég þekkti bara einn mann sem ég var nokkuð viss um að væri ennþá eldri. Það var afi.
Löngu síðar man ég að mér fannst þetta dálítið hégómlegt. Að reyna að fela skallann með þessu móti. En pabbi varð reyndar mjög snemma sköllóttur. Mig minnir að hann hafi sagt mér að hárið hefði alveg verið horfið fyrir þrítugt. Og þegar ég er sjálfur að nálgast þau tímamót að verða löggilt gamalmenni, get ég vel ímyndað mér að það hafi verið svo ungum manni nokkurt sálrænt áfall að verða á örskömmum tíma allsber ofan á höfðinu.
Þetta virðist líka hafa verið einhvers konar tíska. Ég man eftir fleiri mönnum sem greiddu þvert yfir skallann.
Fertugsafmælið
Kannski mætti rifja hér upp fertugsafmælið hans pabba. Ég var fimm ára og það kvöld líður mér aldrei úr minni. Mamma var búin að baka í marga daga. Kvöldmatur var yfirleitt klukkan átta, en þetta kvöld var honum sleppt. Svo leið tíminn. Tertur, rjómapönnukökur, smákökur og margvíslegt fleira bakkelsi stóð á borðinu. En enginn kom.
Pabbi stóð á því fastar en fótunum, að það væri ekki lengur til siðs að bjóða fólki sérstaklega í afmæli. Það ætti bara að vera opið hús og svo kæmu þeir sem koma vildu. Hann vildi ekki mismuna sveitungum sínum með því að bjóða sumum en öðrum ekki. Hann gafst upp um níuleytið ef ég man rétt.
- Jæja, hringdu þá, sagði hann.
Og mamma hringdi út að Jaðri. Þar bjó nánasta skyldfólkið. Þegar hún hringdi svo strax á eftir á aðra nágrannabæi, svöruðu börnin. Foreldrarnir voru lagðir af stað. Þannig virkaði gamli sveitasíminn.
Á innan við hálftíma fylltist húsið að fólki. Það var ekki bara pabbi sem sat og beið með öndina í hálsinum. Sennilega hafði hvergi verið borðaður kvöldmatur þetta kvöld.
Pólstjarnan
Af öllum þeim minningabrotum, sem enn hafast við í einhverjum afkimum hugans, og eiga sér rætur einhvers staðar langt aftur í þessum fyrstu bernskuárum mínum, held ég að mér þyki vænst um þær kennslustundir sem ég fékk í stjörnufræði. Yfir fengitímann þurfti oft að leiða hrúta milli fjárhúsa og stundum fékk ég að sitja á baki hrútsins. Það gilti þó ekki um alla hrúta, heldur fór eftir skaplyndi þeirra. Það var nokkuð löng leið milli fjárhúsanna og á heiðskírum vetrarkvöldum notaði pabbi tækifærið og kenndi mér að þekkja stjörnur.
Enn í dag þarf ég ekki annað en að halla mér aftur á bak í stólnum og loka augunum andartak til að verða aftur svo sem þriggja ára, sitjandi á kollótta hrútnum Glámi, sem var gangmýkri en nokkur hestur. Ég held aftur þéttu taki í ullina og horfi beint upp í himininn. Læri að þekkja Karlsvagninn og fylgja síðan næstum beinni línu, en þó ekki alveg beinni, frá stjörnunum tveimur í enda Karlsvagnsins til að finna pólstjörnuna, þar sem hún blikar ein og stök, næstum því uppi á háhimninum.
Sá sem kann að finna pólstjörnuna, þekkir nefnilega áttirnar og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að villast undir stjörnubjörtum himni.
Til baka
Efst á síðu
Skrá athugasemd
Tweet
X
Hafðu samband
Mitt nafn
*
Mitt netfang
*
*
Fyrirspurn
*
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Senda
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda
Mitt nafn
Mitt netfang
Athugasemd / efni:
X
Fréttabréf
Nafn
Netfang
*
*
Skrá netfang
Afskrá netfang
Fréttabréf í boði
Engin fréttabréf í boði.
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn
*
Netfang
Blogg / Vefsíða
Athugasemd
*
Talan í myndinni hér að ofan er
Skrá athugasemd