Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
sep.

17


2013
Almennt
Þann 17. september 1913 - fyrir ættingja
Í dag leitar hugurinn 100 ár aftur í tímann. Þennan dag, þann 17. september, árið 1913 fæddist Lóa föðursystir mín. Þótt nú séu bráðum 14 ár síðan hún dó, er ég enn ekki alveg frír við þá til tilfinningu að ég ætti að hringja í 2 33 59 og óska henni til hamingju með daginn.

Það leið skammt á milli barneigna ungu hjónanna á Tannstöðum á öðrum áratug síðustu aldar: Lolla (Rósa Sólveig) 7. maí 1912, Lóa (Ólína Valgerður) 17. september 1913, Daddi (Daníel, faðir minn) 23. nóvember 1914, Inga (Ólafía Ingibjörg) 10. febrúar 1916. Fjögur börn á tæpum fjórum árum. En svo kom fjögurra ára hlé. Yngsta barnið, Jón, fæddist 6. apríl 1920.

Ekki þótti við hæfi að hafa börnin í bænum meðan húsfreyjan, Sveinsína Sigríður Benjamínsdóttir, var að ala barn og Daníel bóndi Jónsson var sendur með þau út í fjárhús. Veturinn 1920 var mjög snjóþungur í Hrútafirðinum og fjárhúsin voru á kafi í fönn í bókstaflegri merkingu. Pabbi, sem þá var á sjötta ári, mundi á gamals aldri vel eftir því, að grafinn hafði verið stigi í snjóinn niður að fjárhúsdyrunum. Niður þessar snjótröppur fór afi með börnin sín og í fjárhúsinu biðu systkinin fjögur, þar til boð komu heiman úr bænum um að fæddur væri drengur.

Á þessum tíma stóð tiltölulega nýlegt timburhús á Tannstöðum, byggt kringum 1895. Það var 4x8 = 32 fermetrar, kjallari, hæð og ris, sem að mestu var undir súð. Sjálfsagt hefur þetta þótt ágætlega rúmgott á þeirra tíma mælikvarða. Öld síðar er bílskúrinn minn nokkru stærri að grunnfleti.

Börn bjuggu ekki í foreldrahúsum fram eftir öllum aldri á fyrri hluta síðustu aldar. Í manntalinu 1930 var Lolla skráð búðarstúlka og Lóa vinnukona á Ísafirði, 18 og 17 ára. Vafalaust hafa þær verið þar í einhvers konar skjóli elstu móðursystur sinnar, Guðrúnar Sveinsínu Benjamínsdóttur. Yngri börnin þrjú voru enn á Tannstöðum, pabbi og Inga skráð vinnumaður og vinnukona, 16 og 14 ára, en Jón án tilgreindrar stöðu, enda bara 10 ára.

Nöfn systkinanna fimm voru ekki gripin úr lausu lofti. Elsta dóttirin, Rósa Sólveig, hefur verið látin heita eftir móðurömmu sinni, Rósu Solveigu Daníelsdóttur, sem dó af barnsförum, 39 ára, í lok maí 1890, þegar Sveinsína, amma mín, var á fimmta ári. Það hefur ekki þótt spilla fyrir að stúlkan „kom rétt til nafns“ eins og sagt var.

Ólína Valgerður, sem fæddist fyrir sléttum 100 árum, var heitin eftir föðurömmu sinni, Ólínu Valgerði Ólafsdóttur frá Hlaðhamri. Og Ólafía Ingibjörg hefur heitið eftir langafa sínum og langömmu, Ólafi Björnssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur. Synirnir tveir, Daníel og Jón báru nöfn föður síns og föðurafa. Í þá daga var ekki seilst út fyrir ættir í leit að nöfnum og mannanafnanefnd gerði þar af leiðandi engan óskunda.

Öld síðar hafa afkomendur Tannstaðasystkinanna fimm dreifst víða, ekki ósvipað því sem fræ biðukollu fjúka fyrir vindi. Fræin frá Tannstöðum hafa fest rætur í Bandaríkjunum, Danmörku og Noregi auk Íslands. Og hversu vítt skyldu þau verða komin eftir 100 ár til viðbótar?

Minningargrein um Ingu (Mbl. 19. mars 1985)
Minningargrein um Lóu (Mbl. 5. janúar 2000).
Minningargreinar um Daníel (Mbl. 9. ágúst 2003) og Sigurbjörgu (Mbl. 29. október 2005)
Minningargrein um Daníel Jónsson (Tíminn 31. október 1963).




1
sep.

18

21:17


2013
Logi Jónsson


Sæll Jón. Þessi fróðleikur um Tannastaðarfjölskyldunnar skemmtilegur fyrir þá sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera á Tannastöðum þó um skamman tíma sé að ræða.










X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd