Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
nóv.

27


2010
Stjórnmál
Pistillinn sem beið
Þær hugleiðingar sem hér fara á eftir, hafa leitað á mig undanfarna daga, en ég tók þá ákvörðun að birta þær ekki fyrr en eftir lokun kjörstaða. Reyndar er þó ekki svo að skilja að þær séu líklegar til að breyta neinu.

Kosningar til stjórnlagaþings eru merkileg tilraun og reyndar kannski merkilegri af fleiri ástæðum en menn sáu fyrir. Aðferðin er út af fyrir sig merkileg og lofsverð lýðræðistilraun, en talningarkerfið gæti komið aftan að mönnum og skekkt myndina.

Óreynt og vafasamt kerfi
Ég skoðaði reglurnar talsvert og reyndi að setja upp ákveðin talnadæmi. Það er erfitt vegna þess hversu flóknar reglurnar eru og brot úr atkvæði verða misstór. Mér þótti þó tvennt athyglisvert: Annars vegar sýnist mér að erfiðara sé að ná árangri með því að mynda bandalag milli frambjóðenda. Það er kostur. Hins vegar er augljóst, að jafnvel þótt hver einasti kjósandi væri sammála um að kjósa tiltekinn frambjóðanda er samt ekki víst að hann nái kjöri, ef allir – eða nánast allir – raða honum neðarlega. Jafnvel 100% fylgi í 25 sætið dugar ekki til að ná kjöri. Þetta er afleitur galli.

Stærðfræðingur sem ég hafði samband við, treysti sér ekki til að fullyrða að kerfið drægi úr árangri kosningabandalags, en taldi þó að sú hugmynd mín væri að einhverju marki rétt.

Kerfið er óþekkt hérlendis en þar sem það er notað erlendis, eru bæði miklu færri í kjöri og kjósendur líka stórum mun færri. Þannig getur þetta virkað vel. Menn renna hins vegar blint í sjóinn við þessar aðstæður. Mér sýnist í fljótu bragði að lítil kjörsókn gæti mögulega gert bandalagi ákveðinna frambjóðenda auðveldara að ná árangri en ella væri.

Þetta stafar einfaldlega af því að kosningabandalag höfðar til ákveðins hóps kjósenda og þessi hópur verður nokkuð ákveðin stærð. Ef við gefum okkur sem dæmi að 10 þúsund kjósendur kjósi samkvæmt tilmælum bandalagsins, er augljóst að áhrif þeirra eru lítil ef 200 þúsund manns mæta á kjörstað. Þeir eru þá 5% af heildinni. En kjósi aðeins 50 þúsund manns, eiga fylgjendur bandalagins 20% allra atkvæða og áhrifin verða sýnu meiri.

Það er reyndar allt of langt mál að skýra þetta í smáatriðum, en ég bendi fróðleiksþyrstum lesendum á ágæta útlistun Stefáns Inga Valdimarssonar.

Kosningabandalög
Meginástæða þess að ég kaus að birta ekki þessar hugleiðingar fyrr en að kvöldi kosningadags, er einmitt sú að ég þóttist sjá fyrir, að kosningabandalög yrðu mynduð. Eitt slíkt rak ég reyndar augun í fyrir alllöngu, en skýrast birtist það líklega í bloggi Jóns Vals Jenssonar á fimmtudaginn, þar sem hann segir: „... helzt FULLAN 25 manna lista fullveldissinna! – ég get miðlað honum til samherja okkar.“

Þetta bandalag hefur farið hljótt og ég hef enga hugmynd um hversu víðfeðmt eða skipulagt það er. En ljóst er að tilgangurinn er sá, að ganga þannig frá nýrri stjórnarskrá að hún leyfi ekki inngöngu í ESB.

Ég átti líka von á einhvers konar skipulagi Sjálfstæðsflokksins fyrir kosningarnar. Flokkurinn hefur opinberlega látið sem þessar kosningar komi honum ekki við, en mér þótti frá upphafi augljóst að talsverð skipulagsvinna stæði yfir í Valhöll. Ég verð þó að viðurkenna að aðferðin kom mér á óvart. Seint í gærkvöldi voru sendir út listar yfir „þóknanlega“ frambjóðendur. Annar var samkvæmt  frásögn Eyjunnar sendur af póstfanginu kosning2010[at]hotmail.com og fór á alla póstlista Sjálfstæðisflokksins.

Á þessum lista voru 30 nöfn fólks með „hógværar skoðanir“, sem á mannamáli þýðir „sem minnstar breytingar á stjórnarskrá." Annar listi var líka sendur út í gærkvöldi en um hann er minna vitað. Á þeim lista voru aðeins 10 nöfn, en 8 af þeim nöfnum var líka að finna á stærri listanum.

Ég er þó áfram á þeirri skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert fleira en þetta, þótt hljótt hafi farið. Einhver listi – eða mögulega listar – hefur verið í umferð alla vikuna, en ekki dreift nema til „innmúraðra“ og „innvígðra“.

Sú aðferð að dreifa skilaboðum á aðfaranótt kjördags er ekki ný. Hún hefur oft verið notuð á smærri stöðum fyrir sveitarstjórnarkosningar og þá iðulega verið að dreifa einhvers konar rógi í trausti þess að „sökudólgnum“ ynnist ekki tími til að afsanna sök sína fyrr en eftir lokun kjörstaða. Skylt er að taka fram að aðferðin einskorðast ekki við Sjálfstæðisflokkinn.

Lítil kjörsókn
Þegar þessum lokaorðum er bætt aftan við, er orðið ljóst að kjörsókn var afar dræm - jafnvel bara 40% eða hugsanlega örlitlu minni. Sú staðreynd hefur tvenns konar afleiðingar.

Kosningabandlögin tvö, sem ég hef nefnt hér að framan, munu nánast óhjákvæmilega fá mun fleiri fulltrúa en ella. Hversu marga veit ég auðvitað ekki. En fulltrúar þessara tveggja bandalaga munu ná vel saman. Á grundvelli þess sem þegar er ljóst, má reikna með að fulltrúar „óafturkallanlegs fullræðis“ og „hófsemi“ verði nokkuð margir.

Það má væntanlega kalla óraunhæft að þessar fylkingar nái meirihluta, en þær gætu hugsanlega myndað svo stóran minnihluta að þingið verði illa starfhæft og niðurstöðurnar umdeildar. Fari svo, öðlast röksemdin um dræma þátttöku mjög aukið vægi.

Alþingismenn eiga þá skyndilega auðvelt með að fikta í niðurstöðunum á tvennum forsendum: Stjórnlagaþingið klofnaði og að auki var kosningaþátttaka svo lítil að af þeirri ástæðu einni saman má draga í efa að það hafi nokkra raunverulega þýðingu.

Það má svo kalla kaldhæðni örlaganna ef þetta verður niðurstaðan. Hrunið vakti þjóðina til sjálfsvitundar. Hrunið olli ekki bara almennri reiði, hatri og vantrausti gagnvart öllum stjórnvöldum, heldur varð líka til frjór jarðvegur sem í mátti sá nýrri hugsun, nýjum gildum, nýju sjálfsmati og umfram allt fullkominni endurskoðun á vilja okkar sjálfra – nýjum svörum við spurningunni: Hvernig njótum við lífsins best?

Hvað eigum við skilið?
Svo mikið tel ég fullvíst (þrátt fyrir augljósan skort á sönnunum), að í ákveðnu húsi við Háaleitisbraut 1 í Reykjavík, hafi tölvur verið á fullu við útreikninga þessa nýja kosningakerfis í margar vikur. Niðurstöðurnar hafa síðan verið nýttar eins vel og nokkur kostur var.

Sagt hefur verið að hver þjóð eigi skilið að fá þá ríkisstjórn sem hún kýs yfir sig. Það sannaðist á okkur Íslendingum. Nú sannast kannski að við eigum skilið það stjórnlagaþing sem við kusum EKKI.

Engum er betur ljóst en mér að þetta er bölsýnisspá. Á hinn bóginn óskar þess trúlega enginn heitar en ég, að sú bölsýnisspá rætist ekki.




1
nóv.

28

14:05


2010


Bölsýnisspá?


2
nóv.

29

14:59


2010


Gild spurning, Pétur, því miður.










X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd