Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
okt.

29


2010
Almennt, Stjórnmál
Fátækt er ekki vandamálið
Biðraðir eru greinilega í tísku. Sjónvarpið sýndi tvær í vikunni, á miðvikudagskvöld og fimmtudagskvöld. Á miðvikudag stilltu 600 manns sér upp í biðröð eftir matarpoka hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Á fimmtudagsmorgun stóðu „fleiri hundruð“ í biðröð fyrir utan nýja verslun Elko.

Það er íhugunarefni að horfa á þessar tvær biðraðir. Starfsfólk Kastljóss hefði mátt kveikja á perunni, klippa þær saman og sýna hlið við hlið. Í kjölfarið hefði verið forvitnilegt að sjá formann mæðrastyrksnefndar og forstjóra Elko „takast á“ eins og það heitir á sjónvarpsmáli.

Ég held að ég muni það rétt að „meðallaun*“ á Íslandi séu ekki fjarri 350 þús. kr. á mánuði. Og ég þykist líka muna það rétt að „miðlungslaun**“ séu ríflega 280 þús. Hvort tveggja má teljast býsna gott. Samt eru báðar tölurnar gallaðar.

„Tölfræðin er sú fræðigrein sem nota má til að sanna að manni sem stendur öðrum fæti í frystikistunni en hinum á heitri eldavélarhellu, líði að meðaltali ágætlega“.  Þessi tilvitnun hefur öðlast nafnlausa frægð, en mun upphaflega komin frá gamansömum dálkahöfundi sem skrifaði í sænska dagblaðið Dagens Nyheter upp úr 1970 og kallaði sig „Red Top“.

Og það er einmitt þessi galli sem einkennir íslenska tölfræði. Við tökum of mikið mark á meðaltölum. Okkur hættir um of til að gleyma bæði hæstu og lægstu tölum sem leynast baka til. Það hefur t.d. verið upplýst að ríflega 3.600 fjölskyldur eigi meira en 100 milljónir (umfram skuldir). Gerum ráð fyrir að þetta séu „að meðaltali“ þriggja manna fjölskyldur. Þá hækkar talan í 10.800 og verður um leið um 3% af þjóðinni.

Ef þessar 3.600 fjölskyldur gæfu (t.d. í kristilegum kærleiksanda) tíund af eign sinni til þeirra 10.800 landsmanna sem verst eru settir, mætti segja mér að Mæðrastyrksnefnd, Fjölskyldhjálp Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar gætu farið í frí.

Fátæktin er sem sagt ekki stærsta vandamál okkar Íslendinga, heldur misskipting eigna og launa. Og fræðilega séð er þetta ekki stórt vandamál. Okkur dygði sennilega fullvel að færa 10% af eignum og launum frá þremur ríkustu prósentunum til þriggja fátækustu prósentnanna.

Allt annað, en ekki óskylt mál er svo það, að giskað hefur verið á, að væri öllum eignum jarðarbúa skipt jafnt, kæmu tæpar 5.000 evrur í hlut. Á núverandi gengi samsvarar það 773 þúsund krónum. Mannkynið er sem sagt ágætlega statt – að meðaltali.


* Meðallaun eru samanlögð laun deilt með fjölda allra launþega. (Þetta er það sem almennt er kallað "meðaltal".)

** Miðlungslaun (miðgildi launa) eru laun þess einstaklings sem lendir nákvæmlega í miðjunni, þegar öllum launþegum er raðað í einfalda röð eftir launafjárhæð, frá lægstu launum til þeirra hæstu. (Þessi aðferð gefur mjög oft réttari mynd).

(Þess má geta að báðar aðferðirnar eru viðurkenndar og notaðar af sérfræðingum í tölfræði - allt eftir því hvor á betur við. Til viðbótar er þriðja aðferðin einstaka sinnum notuð. Hún nefnist "algengasta gildi" en gefur aðeins örsjaldan réttari mynd.)




1
okt.

30

00:04


2010
aagnarsson


Standi Jóhanna við loforðið, frjálsar
handfæraveiðar, leysir það atvinnu
og fátækra vanda Íslendinga!


2
okt.

30

01:44


2010


aagnarsson: Nokkuð rétt til getið. Ég var á "rúllu" á Austfjörðum 1973. Þar var ekkert atvinnuleysi í landi.

Aðeins einu sinni fórum við á sjó á sunnudegi: Það kallaðist að fara á matfisk. Sem sagt aflinn fór ofan í frystikisturnar okkar og entist allan veturinn.


3
okt.

30

04:24


2010
Birkir


Það er svona kjaftæði sem kemur í veg fyrir að það sé hjálpað fátækum.

Fátækt er félagslegur sjúkdómur og fólk sem lifir undir fátæktarmörkum er í skelfilegri aðstöðu.

En það er hvorki ólöglegt né siðlaust að eiga peninga. Tekjubilið skiptir engu máli og það á ekki að refsa fólki fyrir fjárhagslegt frelsi.

Það sem skiptir máli er að hjálpa fátækum og lækka botninn. Það er það sem skiptir máli, þessvegna er fátækt mikilvæg og fátækt er vandamál. En svo lengi sem fólk heldur á lofti að það sé verra að fólk sé ríkt en fátækt þá gerist lítið.


4
okt.

30

05:38


2010


Sæll Birkir.

Ég ætla ekki að leika mér að veikum punktum í röksemdum þínum. Mér þykir athugasemdin heiðarleg og þakka fyrir hana.

Ég vil þó vekja athygli þína á því að tekjubilið skiptir máli og að botninn verður ekki hækkaður (lækkaður geri ég ráð fyrir að sé misritun) nema til komi einhver lítils háttar fórn frá þeim sem eiga peninga.

Það er hárrétt hjá þér að það er hvorki ólöglegt né ósiðlegt að eiga peninga. En mikið þætti mér fallegt að fólk sem á peninga stigi út úr rammanum.










X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd