Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
sep.

28


2010
Stjórnmál
Sérkennileg samviska
Út af fyrir sig má kalla rökrétt að fyrst aðeins einn fyrrverandi ráðherra verður dreginn fyrir landsdóm, skuli það vera Geir H. Haarde, forsætisráðherrann sjálfur. Eðli málsins samkvæmt hlýtur hann að bera mesta ábyrgð.

Hvernig þessi niðurstaða fékkst, stenst á hinn bóginn engin rök. Þvert á móti sýnir atkvæðagreiðslan okkur ljótan leikhúsfarsa sem settur hefur verið á svið innan þingflokks Samfylkingarinnar. Fyrir þessum orðum hef ég vitaskuld enga sönnun og hún mun trúlega aldrei fást. En þetta er ekki flókið reikningsdæmi.

Samfylkingarþingmönnunum hefði verið í lófa lagið að kæra bæði Geir og Árna Mathiesen en sleppa sínum eigin ráðherrum, Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvin. Slík niðurstaða hefði augljóslega verið flokkspólitísk og kannski jafngilt pólitísku sjálfsmorði fyrir flokkinn í heild.

Eftir stóðu tveir möguleikar: að kæra þrjá og fórna þar með öðrum hvorum Samfylkingarráðherranum, eða sleppa Árna Mathiesen og kæra Geir einan. Báðir möguleikarnir dylja sæmilega hið pólitíska leikrit og það varð sem sagt síðarnefnda leiðin sem var farin.

Eftir atkvæðagreiðsluna hafa fjórir þingmenn verið nefndir sem sökudólgar: Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Skúli Helgason. En það er reginmunur á atkvæðum þeirra.

Ólína og Sigríður greiddu atkvæði gegn kæru á hendur Ingibjörgu Sólrúnu en vildu kæra Björgvin, ásamt Geir Haarde og Árna Mathiesen.  Þetta er málefnaleg afstaða og í samræmi við niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis.

Allt öðru máli gegnir um afstöðu Helga Hjörvar og Skúla Helgasonar. Þeir greiddu atkvæði með því að kæra Geir Haarde, en gegn öllum öðrum kærum. Þannig tóku þeir á sínar herðar að bjarga Árna Mathiesen með Samfylkingarráðherrunum. Til þess þurfti nákvæmlega 2 atkvæði. Merkileg tilviljun eða hvað?

Samviska þessara tveggja þingmanna virðist óneitanlega nokkuð sérkennileg. Afstaða þeirra brýtur bæði gegn niðurstöðum Rannsóknarnefndarinnar og Atlanefndarinnar og eiginlega ógerlegt að kalla hana málefnalega.

Sjálfur hlýt ég að íhuga hvort ég eigi heima í sama stjórnmálaflokki og þessir tveir herramenn.

Annað mál er svo það, að Alþingismenn gerðu þeim þremur, sem sluppu, ekki beinlínis neinn greiða. Verði Geir H. Haarde sýknaður fyrir landsdómi, má vissulega telja yfirgnæfandi líkur á að þremenningarnir hefðu líka verið sýknaðir. En verði Geir fundinn sekur, mun sektargrunurinn hanga yfir þessu fólki um aldur og ævi án þess að eiga þess nokkurn tíma kost að hreinsa mannorð sitt.




1
sep.

28

23:31


2010
ASE


Skil hugsunarganginn, engin sönnun en hljómar rökrétt. Hallast að sömu niðurstöðu. Og mjög sammála lokaorðum þínum.

Ps. og ef einhver heldur að eitthvert þeirra sem "sýknað" eigi afturkvæmt í stjórnmál..... þá held ég að viðkomandi þurfi að hugsa sinn gang. Meira að segja íslenska þjóðin er ólíkleg að láta bjóða sér það..... og lætur hún nú bjóða sér ýmislegt :-o


2
sep.

29

07:42


2010
Sverrir Hjaltason


Er reyndar þeirrar skoðunar að pólitísk mistök fjórmenninganna eigi og hafi aldrei átt neitt erindi fyrir landsdóm.

Refsing þeirra felst í að traust kjósenda hvarf og er það eftir lögum.

Það hefur verið sárt að horfa á eftir hluta Samfylkingarinnar ganga í Heiðnaberg ofstækismanna undir forustu Atla Gíslasonar.

Vonandi verður snúið af þessari braut innan flokksins þannig að það megi bjargast sem bjargast getur.

Mig grunar að Samfylkingin hafi nú í bili misst af því tækifæri sem hún átti til að verða öflugur jafnaðaflokkur með farsæld þegna að leiðarljósi.

Kjósendur munu kveða upp sinn dóm áður en langt um líður. Þá kemur í ljós hvernig uppskeran verður.

Forysta Samfylkingarinnar hefði betur eytt kröftum sínum í að bæta stjórnarhætti og vinnubrögð þannig að við þyrftum ekki að standa frammi fyrir svona hlutum aftur.

Nefnna má þá kórvillu með Icesave málið að reyna ekki að vinna það með stjórnarandstöðu frá upphafi í stað þess að leggja alla meðferð málsins í hendur Vinstri-grænna undir forystu Svavars Gestssonar.

Það hangir enn í lausu lofti þjóðinni til mikils tjóns og líklegt aað það megi rekja til vinnubragða og óeiningar stjórnarliða að mestu þó stjórnarandstaðan hafi ekki hjálpað til heldur.

Banksterar mega heldur ekki ráða för en áhrif þeirra virðast vera mikil og sýpur almenningur seyðið af því.

Lærdómurinn sem má af þessu draga er að horfast í augu við mistökin, játa þau, iðrast og taka upp bætt vinnubrögð í kjölfarið.


3
sep.

29

14:32


2010
-DJ-


Það er hvorki vilji né geta hjá fjórflokknum til breytinga á starfsháttum.

Það sannaðist nú endanlega í gær. Þeir fáu þingmenn sem ráða við að hugsa "utan kassans" fá svo almennt ekki að vera með, þeim er sagt að leika sér bara úti í horni.

Annars finnst mér lítið hafa verið rætt um þessa þriggja ára fyrningu á ráðherraábyrgð.

Er sá stutti tími ekki enn eitt dæmið um hina víðfrægu samtryggingu?


4
sep.

29

14:58


2010


Ég þakka þessar athugasemdir.

Sverrir: Ég get vel skilið það sjónarmið þitt, að engan hefði átt að ákæra. Sjálfur tel ég að öll fjögur hefðu átt að fara fyrir landsdóm. Mér finnst þó grundvallaratriði að önnur hvor þessi skoðun hefði orðið ofan á ? sem sagt annað hvort enginn eða öll fjögur. Að þessu leyti er ég sammála Sigurði Líndal og ýmsum öðrum.

Skúli Helgason hefur í dag fært rök fyrir þeirri skoðun sinni, að Geir H. Haarde hafi sem forsætisráðherra haft flesta eða alla þræði í hendi sér, og því sé rétt að kæra hann einan. Með góðum vilja má segja að þessi rök fái staðist, en það er samt merkileg tilviljun að af 63 þingmönnum skyldu nákvæmlega 2 komast að þessari niðurstöðu.

Þetta er til þess fallið að vekja grunsemdir, ekki síst vegna þess að nákvæmlega 2 atkvæði þurfti til að úrslitin yrðu þau sem raun ber vitni.

Hvernig sem á málið er litið, var þetta slæm niðurstaða. Og kannski verst fyrir þau þrjú sem sluppu.

DJ: Að ráðherraábyrgð skuli fyrnast á skemmri tíma en nokkuð annað, er auðvitað reginfirra. Og jú, vafalaust partur af ævafornu samtryggingarkerfi flokkanna.










X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd