Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
jún.

25


2010
Stjórnmál
Ranglætið eftir dóm Hæstaréttar
Það er að sjálfsögðu afar ranglát mismunun að sumir lántakendur fái stóran hluta skulda sinna felldan niður, en aðrir ekki neitt. Það bætir síst úr skák ef niðurfellingin verður svo mikil að hinir fyrrnefndu þurfi á endanum að greiða mun minni raunverðmæti en þeir fengu að láni.

Þótt ekki séu alveg öll kurl komin til grafar verður að telja langlíklegast að samningsvextir gengislánanna gildi, en þeir munu yfirleitt vera kringum 3%. Í þessu sambandi má vísa til orða Magnúsar Thoroddsen, fyrrum hæstaréttardómara, á Rás 2, en ummælum hans voru gerð ágæt skil í frétt á Eyjunni fyrir skemmstu.

Óréttlætið sem felst í þessari mismunun gagnvart lántakendum er að sjálfsögðu óviðunandi. Fræðilega séð má hugsa sér tvær leiðir til leiðréttingar: að þyngja byrðarnar á þeim sem nú fá þennan mikla afslátt, eða létta byrðar hinna sem engan afslátt fá. Fyrri leiðin er einfaldlega ólögleg og þar af leiðandi ófær. Um það þarf ekki að orðlengja.

Eftir stendur þá að létta byrðar þeirra sem tóku verðtryggð lán. Þetta hefur þegar verið gert að einhverju marki, en einungis gagnvart þeim sem allra verst eru settir. Ekki hefur verið talið gerlegt að láta eitt yfir alla ganga, vegna þess að það er einfaldlega allt of dýrt.

Um leið og þetta er orðið að spurningu um almennt réttlæti, horfir málið allt öðru vísi við. Ef létta á byrðar þeirra sem tóku verðtryggð lán beinlínis í þeim tilgangi að fullnægja sanngirni og réttlæti, þarf almenna lækkun. Þar verður hið sama að gilda um alla.

En það verður dýrt. Allnokkur hluti gengislánanna sem Hæstiréttur hefur nú afskrifað, lendir á erlendum kröfuhöfum gömlu bankanna og þar með ekki á íslenskum skattgreiðendum. Verðtryggðu lánin eru hins vegar að mjög stórum hluta hjá Íbúðalánasjóði, sem er að fullu á ábyrgð ríkisins.

En með því að lækka verðtryggð lán á ábyrgð ríkisins væri sem sagt réttlætinu fullnægt. Kostnaðinn yrðu skattborgararnir að bera, allir jafnt. Og þeir sem nú hafa fengið niðurfellingu skulda yrðu þar með að axla sinn hlut til jafns við alla hina.




1
jún.

26

10:53


2010
Benedikt


Verðtrygging og gengistrygging eru tvær mismunandi aðferðir sem hafa sama markmið: að vernda verðgildi peninga fyrir efnahagssveiflum. Báðar eru afleiðing af slæmu og spilltu stjórnarfari sem verið hefur á Íslandi um áratugaskeið. Svona vinnubrögð þekkjast ekki meðal siðaðra þjóða.

Tveir menn taka lán, annar verðtryggt og hinn gengistryggt. Bankakerfið hrynur og hækkar bæði lánin verulega. Síðar kemur í ljós fyrir dómi að önnur verðtryggingin var ólögleg og við því þarf að bregðast. Það stenst ekki skoðun að halda því fram að í þessari atburðarás felist "afar ranglát mismunun". Þetta eru tvö óskyld mál að öðru leyti en þegar hefur verið lýst. Í öðru tilfellinu lækkar höfuðstóll lánsins vegna þess að aðferðin við að tryggja hann studdist ekki við lög eins og hin aðferðin. Ekki er um að ræða að verið sé að hygla öðrum aðilanum á kostnað hins með einhverjum aðferðum, heldur er verið að fara að lögum. Allir eru jafnir fyrir lögunum og því er ekki um neina mismunun að ræða. Þetta með mismunina er því rökvilla hjá þér, ágæti Jón.

Hitt er svo annað mál að auðvitað ættu stjórnvöld að kosta kapps um að rétta hlut þeirra sem tóku lán með löglegri verðtryggingu, fyrst og fremst vegna þess að óvænt atburðarás, sem þessir lántakendur gátu ekki með nokkru móti haft áhrif á, breytti forsendum fyrir lántökum þeirra gjörsamlega.


2
jún.

26

16:45


2010


Sæll Benedikt.

Ég get tekið undir þetta allt nema rökvilluna.Þennan pistil má raunar kalla framhald af þeim síðasta "Á nú að setja afturvirk lög?". En ég get auðvitað ekki ætlast til að menn lesi þessi pistla sem framhaldssögu :-)

Allt of margir falla einmitt í þá gryfju að rugla saman lögum og (siðferðilegu) réttlæti. Frá sjónarhóli lagabókstafsins er engin mismunun hér á ferð.

Á hinn bóginn er eðlilegt að réttlætiskennd almennings sé ofboðið þegar þessi staða kemur upp. Þótt lántakendum sé ekki mismunað í lagalegum skilningi, er mismununin beinlínis ógnvænleg þegar horft er á málið gegnum velsæmisgleraugun.

Og það er einmitt á grundvelli þessarar almennu réttlætiskenndar, sem ég tel að stjórnvöld verði að bregðast við. Hreint alls ekki á neinum lagaforsendum.


3
jún.

26

23:37


2010
-DJ-


En ef og þegar réttlætiskennd hins almenna borgara er misboðið, en lög eru ekki brotin, þá er einmitt komin upp merkileg staða.

Þá sjáum við og vitum að óstjórn hefur verið og/eða er í gangi.


4
jún.

27

00:18


2010


Nokkurn veginn hárrétt ályktað DJ.


5
jún.

28

06:11


2010
Einar Jón


"Löglegt en siðlaust" virðist vera vinnuregla í bankabransanum. En í þessu tilviki vissu fjármögnunarfyrirtækin að lánin voru ólögleg. Það að ota gengislánum að grunlausum lántakendum var því bæði ólöglegt og siðlaust.

Fjármögnunarfyrirtækin tóku sem sagt ólöglega háar afborganir í um 2 ár. Af sanngirnissjónarmiðum finnst mér því að lögin eigi að standa óverðtryggð með óbreyttum vöxtum í a.m.k. 2 ár áður en farið er að hugsa um nokkra leiðréttingu.
Af lagasjónarmiðum finnst mér að fjármögnunarfyrirtækin eigi að bera allan skaðann af sínum ólöglegu samningum.


6
jún.

28

13:46


2010
Benedikt


Sæll Jón.

Við erum báðir fylgjandi jöfnuði og réttlæti, en kannski ekki á einu máli um hvort "stjórnvöld verði að bregðast við" dómi hæstaréttar um gengistryggð lán.

Ég er að hugsa um að spara mér allnokkrar skriftir með því að benda þér á að lesa ágætan pistil Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, "Ríkisábyrgð á réttlæti" (http://blog.eyjan.is/sigurbjorg/2010/06/27/rikisabyrgd-a-rettlaeti/), en hún hugsar þetta mál á mjög svipuðum nótum og ég.

Lífið er ekki réttlátt, nema handafli sé beitt. Ef tveir menn fara saman og kaupa sér sitt hvorn hestinn og annar hreppir góðhest en hinn vonlausa bikkju þá kemur enginn réttlætisengill svífandi af himnum ofan og breytir góðhestinum í bikkju svo að báðir verði jafnir. Svipað gildir um gengistryggðu og verðtryggðu lánin.

Hér er að vísu eitt atriði sem skiptir höfuðmáli. Mér finnst ekki réttlátt að leiðrétting gengistryggðu lánanna verði gerð á kostnað skattborgaranna. Það getur aldrei gengið upp. En það er ekki rétt hjá Gylfa Magnússyni (þeim ágæta sómamanni) að þessi leiðrétting lendi á skattgreiðendum. Í fyrsta lagi hefur Íslandsbanki lýst því yfir að hann muni standa af sér afleiðingar dómsins og í öðru lagi er ekki sjálfgefið að ríkið bjargi alltaf illa stöddum fjármálafyrirtækjum. Þau verða bara að taka afleiðingum ólöglegra gerða sinna og rúlla, ef svo ber undir. Það er óþarfi að blanda skattgreiðendum í þeirra vandræði.

Svo vona ég að Helgi Hjörvar hafi eitthvað til síns máls um að til séu 100 milljarðar sem þá væri hægt að nota til að lækka höfuðstól verðtryggðu lánanna.


7
júl.

02

00:58


2010


Sælir, Einar Jón og Benedikt.

Ég þakka ykkur báðum fyrir málefnalegar athugasemdir og reyni að svara ykkur eftir bestu getu.

Einar Jón: Þessi orð Vilmundar Gylfasonar, ?Löglegt en siðlaust? koma okkur beint að kjarna málsins. Mér ?finnst? auðvitað eins og flestum öðrum að lög og siðferði ættu að eiga einhverja samleið. En svo er því miður alls ekki alltaf.

Ég veit ekki hvað forstjórar fjármálafyrirtækjanna vissu, en ég er sammála þér um að fyrirtækin verða, rétt eins og aðrir lögbrjótar, að taka afleiðingunum. Í versta falli verða þau bara gjaldþrota.

Benedikt: Ég hef að sjálfsögðu lesið pistil Sigurbjargar. Hún er einhver glöggasti og rökþéttasti skríbentinn í bloggheimum og ég læt skrif hennar ekki fram hjá mér fara.

Í þessu tilviki get ég vel fallist á að ógerlegt sé að taka upp almenna ríkisábyrgð á réttlæti. Ég vil þó benda á, að öfugt við Hæstaréttardóma hefur lagasetning ekki fordæmisgildi. Og þegar lögin ná ekki að framkvæma réttlæti, hver ber þá ábyrgð á að réttlætis sé gætt?

Við öll, við sjálf, samfélagið í heild ? og í okkar umboði Alþingi og ríkisstjórn. Það er mitt persónulega svar.

Þér finnst skipta höfuðmáli að ?leiðrétting gengistryggðu lánanna verði [ekki] gerð á kostnað skattborgaranna.? Sammála. En það lagði ég ekki til í pistlinum hér að ofan.

Það er leiðrétting verðtryggðu lánanna sem verður á kostnað skattborgaranna ? allra jafnt.

Hvað bitnar á okkur skattgreiðendum og hvað ekki, veit hvorugur okkar. Hluti gengistryggðu lánanna lendir á erlendum kröfuhöfum, restin á okkur. En við vitum ekkert um hlutföll né upphæðir.

Það á eftir að koma í ljós.

En jú, vonandi hefur Helgi Hjörvar eitthvað til síns máls. Mikið væri það gott.










X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd