Það er nefnilega vandséð að Jón Gnarr og félagar hans í yfirlýstu grínframboði ætli í raun og veru að skipta sér eitthvað af stjórn Reykjavíkurborgar eftir kosningar. Langtrúlegast að að væntanlegir borgarfulltrúar Besta flokksins muni líta á það sem hlutverk sitt að halda uppi húmor á Borgarstjórnarfundum, en gæta þess umfram allt að hafa ekki áhrif á valdahlutföll milli annarra flokka.
Sé þetta rétt til getið fær Sjálfstæðisflokkurinn, samkvæmt könnun dagsins, hinn raunverulega meirihluta: 5 borgarfulltrúa á móti samtals 4 fulltrúum Samfylkingar og Vinstri grænna. Þannig myndu sem sagt 31% atkvæða duga fyrir raunverulegum meirihluta.
Afstöðuleysið geta grínistarnir sett fram með ýmsu móti. Einfaldast er auðvitað að sitja hjá við atkvæðagreiðslur, en Besti flokkurinn gæti líka tekið upp á ?klofna? í ýmsum málum, eða jafnvel ganga úr salnum fyrir atkvæðagreiðslur. Allar aðferðirnar bjóða upp á fyrirtaks tækifæri til að koma þokkalegustu bröndurum á framfæri.
En að Besti flokkurinn falli í þá gryfju að taka þátt í meirihlutasamstarfi, þykir mér ótrúlegt. Með því væri þetta framboð nánast að ganga þvert gegn tilgangi sínum.
Fýlupokaviðbrögð eins og þau sem sést hafa í kvöld, t.d. frá oddvitum Vinstri grænna og Framsóknarflokksins eru ekki líkleg til árangurs og munu, ef þau breyta einhverju, hafa þveröfug áhrif.
Stjórnmálamenn verða bara að bíta í súra epli að stór hluti kjósenda hefur um þessar mundir megna óbeit á pólitíkusum og flokkakerfinu í heild. Meiri hluti kjósenda virðist þó enn líta á stjórnmál sem alvörumál og það er um hylli þessara kjósenda sem baráttan stendur.
Að agnúast út í Besta flokkinn þjónar ekki minnsta tilgangi.