Það er vissulega alsiða að ríkið borgi þegar ráðherrar eða embættismenn teljast hafa farið á svig við lög og getur verið eðlilegt í sumum tilvikum, enda geta öllum orðið á einhvers konar mannleg mistök. En því er ekki til að dreifa í þessu tilviki.
Við skulum kíkja í dóminn: ?Það að stefndi, Árni, skuli með saknæmum og ólögmætum hætti ganga á svig við niðurstöður lögboðinnar dómnefndar og skipa einstakling, sem flokkaður er tveimur hæfnisflokkum neðar en stefnandi, og með brot af starfsreynslu stefnanda, er ólögmæt meingerð á æru og persónu stefnanda.?
Og nokkru síðar: ?Er það mat dómsins að stefndi, Árni, eigi persónulega að standa straum af tildæmdum miskabótum. Hins vegar hefur stefndi, íslenska ríkið, byggt á því að það beri vinnuveitendaábyrgð á gerðum ráðherra. Dómurinn er bundinn af þeirri málsástæðu stefnda, íslenska ríkisins, og verður því stefndu gert að greiða stefnanda miskabætur óskipt.?
Héraðsdómarinn, Sigrún Guðmundsdóttir, telur embættisveitingu Árna Mathiesen sem sagt bæði ?saknæma? og ?ólögmæta? og telur málið þannig vaxið að Árni eigi hreinlega að borga úr eigin vasa. Þetta er bæði skýrt og skorinort. Samt er dómarinn bundinn í báða skó og neyðist til að dæma ríkissjóð. Hvernig í ósköpunum stendur á því?
Jú, framar í dómnum segir nefnilega: ?Það er enginn ágreiningur í málinu um að dómsmálaráðherra skipar í embætti héraðsdómara að viðlagðri ráðherraábyrgð. Ef út af bregður getur sá sem telur sig verða fyrir tjóni vegna starfsveitingar almennt krafist bóta úr hendi íslenska ríkisins. Persóna viðkomandi ráðherra skiptir hér engu máli.?
Þetta þýðir að íslenska ríkið hefur krafist þess að fá að borga fyrir saknæmt og ólögmætt athæfi Árna Mathiesen. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hljóta að geta útskýrt fyrir ríkislögmanni að hlutverk hans sé að gæta hagsmuna ríkissjóðs, en ekki að halda verndarhendi yfir saknæmu og ólögmætu athæfi einstaklinga.
Mér er mætavel kunnugt að á sumum sviðum er ævagömul hefð fyrir ákveðinni samtryggingu allra flokka. Guðmundur Kristjánsson á heiður skilinn fyrir að gera atlögu að þessari samtryggingu með því að stefna Árna Mathiesen persónulega.
Og ég leyfi mér að skora á forsætis- og fjármálaráðherra að rjúfa nú þessa hefð, með því að láta draga til baka kröfuna um ?vinnuveitendaábyrgð? ríkisins þegar málið kemur fyrir Hæstarétt.
Út af fyrir sig getur verið að Hæstiréttur komist engu að síður að þeirri niðurstöðu að ríkið beri ábyrgð á embættisafglöpum þessa fyrrverandi starfsmanns síns. En það er hlutverk dómstóla að skera úr um slíkt. Ríkið á ekki að binda hendur dómara með því að gera þá dómkröfu að fá að borga.
Hin ævagamla samtryggingarhefð fjórflokksins er fullkomlega siðlaus og afnám hennar væri stórt skref í átt að opnari, eðlilegri og lýðræðislegri stjórnarháttum. Framvegis á öllum ráðherrum að vera það alveg morgunljóst að þeir geta þurft að bera sjálfir raunverulega ábyrgð á gerðum sínum.
Að auki má spyrja hvort orðalagið "með saknæmum og ólögmætum hætti" gefi tilefni til rannsóknar af hálfu ríkissaksóknara og þá kannski opinberrar ákæru í kjölfarið.