Bakgrunnur
Velkomin(n) á
JonDan.is
.
Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.
Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.
Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.
Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".
JonDan.is
Blogg
Greinasafn
Myndir
Hver er maðurinn
Fyrir mitt minni
Minningabrot
Af öðrum toga
Fjölskyldufréttir/Fami...
Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
nóv.
28
2009
Almennt
Darwin og Keynes III
Ekki átti ég von á að margir hefðu húmor fyrir hugleiðingum mínum um þær ályktanir sem hagfræðingar kynnu að geta dregið af þróunarsögu mannsins. En mér finnst gaman að skoða hlutina frá fleiri sjónarhornum en þeim allra sjálfsögðustu og þess vegna lét ég þennan síðasta pistil flakka. Ekki var hann mikið lesinn á heimasíðunni minni, en Karl Th. Birgisson birti hann á Herðubreið og nú hefur dr. Stefán Snævar meira að segja séð ástæðu til að virða þennan pistil svars á sama vettvangi.
Grein Stefáns
er prýðileg lesning, bæði upplýsandi og skemmtileg og ekki þarf að orðlengja það að allt sem hann segir þar er satt og rétt. Ég sé hins vegar enga mótsögn milli þessara tveggja pistla. Þvert á móti er grein Stefáns góð viðbót, og a.m.k. sumt af því sem hann setur þar fram langaði mig einmitt að nefna, en lét eiga sig af þeirri einföldu ástæðu að ég var bara að skrifa bloggpistil en ekki fræðiritgerð.
Það er hárrétt athugað að samkennd og samúð eru ríkir þættir í eðlisfari mannsins og fyrir rúmum áratug uppgötvuðu menn að sérstakar heilafrumur ?spegilfrumur? eða ?spegilnevrónur?, eins og Stefán nefnir þær, hafa með höndum það vandasama hlutverk að vekja okkur samúð og samkennd með öðru fólki. Ég þýddi einmitt grein um þetta efni í Lifandi vísindi fyrir tveimur árum og hef nú sett hana inn á heimasíðuna
(hér)
, ef einhver skyldi vilja kynna sér þetta örlítið betur. Afar spennandi efni að mínu viti.
Þróunin hefur skapað hverri dýrategund sínar eðlisávísanir, sem ýmist eru sérstakar fyrir tegundina eða sameiginlegar með öðrum tegundum. Eðlisávísanir, sem eru mörgum dýrategundum sameiginlegar, eru arfur frá sameiginlegum forfeðrum og formæðrum, en hinar sérstöku eru aftur á móti áunnar í þróun hverrar tegundar fyrir sig.
Ég gerði eiginlega aðeins eina eðlisávísun að umtalsefni, nefnilega framagirnina, en hún verður að teljast sameiginleg manninum og fjölmörgum öðrum tegundum og á sér því gríðarlanga sögu. Stefán teflir fram annarri eðlisávísun sem er mun yngri, en þó alls ekki einskorðuð við manninn, sem sé ?samlíðan?. Ég kýs að túlka þetta orð sem samheiti fyrir ?samkennd? og ?samúð?.
Nú má hver sem vill efast um eftirfarandi: Ég þykist hafa séð greinileg merki um ?samkennd? hjá íslensku sauðkindinni. Að sauðkindur auðsýni hver annarri samúð, hygg ég að væri ofmælt, en þetta hefur þó held ég aldrei verið rannsakað. Sauðkindin er afar fjarskyldur ættingi okkar manna og ég nefni þetta hér til að benda á að einhvers konar ?samlíðan? er ævaforn eðlisávísun, sem hefur viðhaldist um milljónir ára hjá dýrategundum sem ástunda félagsskap.
Hinn svokallaði nútímamaður, Homo sapiens, hefur sáralítið breyst í 200 þúsund ár (að vísu mun allt núlifandi mannkyn vera komið af íbúum lítils ættbálks sem uppi var í Austur-Afríku fyrir 60.000 árum eða svo, samkvæmt nýlegum rannsóknum á erfðaefni manna ? það breytir mörgu, en ekki aldri mannkyns).
Eðlisávísanir ganga í arf frá kynslóð til kynslóðar, en breytast að vísu eftir aðstæðum ? þó á mjög löngum tíma. Eðli mannskepnunnar er afar fjölbreytilegt og margt virðist í fljótu bragði stangast á, jafnvel mjög heiftarlega. Sem augljóst dæmi má nefna tvo eiginleika sem virðast báðir eðlislægir: Nýjungagirnina og íhaldssemina. Báðir þessir eðlisþættir eru ríkjandi og hafa skipst á, en til lengri tíma litið hefur held ég myndast visst jafnvægi milli þessara öfga.
Samkennd og samúð (eða samlíðan) virðist líka í fljótu bragði stangast á við framagirnina. En það er reyndar ekki svo. Báðar þessar eðlishneigðir voru nauðsynlegar í því ættbálkasamfélagi sem umfram annað hefur einkennt tegundina Homo sapiens í kannski 200.000 ár. Allan þennan tíma höfum við lifað í tiltölulega smáum hópum, lengi framan af sennilega á flakki í leit að fæðu, en síðustu 5-10 þúsund árin með nokkuð fasta búsetu í þorpum.
Allan þennan tíma var samstaða gríðarlega mikilvæg. Sú nauðsyn hefur örugglega eflt spegilfrumur heilans og þar með bæði samkennd og samúð. En það var líka mikilvægt að hafa leiðtoga. Þeir ættbálkar sem ekki áttu sér ótvíræðan leiðtoga, hafa orðið seinir til viðbragða þegar nágrannaættbálkurinn kom í ránsferð. Hér er til samanburðar upplagt að nefna Örlygsstaðabardaga á Íslandi árið 1238 þegar þeir feðgar, Sighvatur og Sturla, urðu höndum seinni og lifðu fyrir bragðið ekki fleiri daga.
Höfðingjalaus ættbálkur, eða ættbálkur með ámóta slaka leiðtoga og þá feðga, hefur trúlega mátt þola algjöra útrýmingu fyrir t.d. 50.000 árum. Kannski hafa þó einhver kvengen fengið að lifa áfram.
Mig langar líka að nefna hér eitt merkilegt fyrirbrigði, nefnilega ?millistjórnendur? sem svo hafa verið kallaðir og gegndu stóru hlutverki í útrásinni. Maður gæti ætlað að þetta væru menn sem hefðu tapað fyrir vöðvafjallinu sem vann leiðtogasætið (eða nú til dags, tapaði fyrir manni sem gat töfrað fram fleiri og stærri seðla), en það er ekki alls kostar rétt.
Í öll þessi 200.000 ár hefur leiðtoginn mikli haft um sig hirð. Þetta eru ráðgjafar hans og leiðtoginn veit trúlega alltaf að í ráðgjafahópnum er hver og einn tilbúinn að taka við ? og bíður bara eftir rétta tækifærinu. Hér hefur alltaf verið um að ræða gagnkvæma hagsmuni.
Ráðgjafahópurinn (nú millistjórnendur) myndar eins konar lífvörð um leiðtogann og hann launar þeim með því að raða þeim efst í virðingarstigann ? ýmist einu eða tveimur þrepum fyrir neðan sjálfan sig. Um þetta geymir hin skrifaða mannkynssaga fjölmörg dæmi.
Það er að vísu misjafnt hvernig leiðtoginn er valinn. Upphaflega réði trúlega vöðvaaflið, síðar aldur og reynsla (að því tilskildu að leiðtoginn væri með ?fulde fem?). Sennilega hafa menn smám saman uppgötvað að hugsun er vöðvafli mikilvægari þegar hagsmunir heildarinnar eru í húfi. Nú er svo hræðilega komið fyrir mannkyninu að peningar duga. Þetta þýðir í raun og veru að afturhvarf til öldungasamfélagsins væri í rauninni framför. Ég viðurkenni fúslega að fyrir lýðræðissinna er helvíti hart að þurfa að segja þetta.
Mannkynið hefði aldrei lifað af nema fyrir tilverknað þessara merkilegu spegilfrumna. Samkennd og samúð eru okkur lífsnauðsynlegar tilfinningar. Leiðtogaþörfin er það líka. Og sama gildir um metorðaþrána. Án hennar væri enginn leiðtogi og engir lífverðir (millistjórnendur).
Stefán Snævarr nefnir tvær bækur í afar góðri grein sinni. Ég játa fúslega að hvoruga hef ég lesið. Kannski á ég það bara eftir. En ég get vel fallist á þá hugmynd Georges Lakovs að innræting í uppeldi ráði miklu. Ég er sjálfur ágætt dæmi um þetta og ég er ekki frá því að hið sama gildi um Stefán. Mér var í barnæsku innrættur heiðarleiki og samúð með þeim sem kynnu að vera minni máttar. Þessi lærdómsorð foreldra minna hafa mótað mig og lífsafstöðu mína alla tíð.
Aftur á móti má ég til með að benda bæði Stefáni og öðrum þeim sem kunna að haft í sér nennu til að lesa alla leið hingað, á þá merkilegu vísindagrein sem á íslensku kallast ?atferlisfræði?. Aðferðum þessarar greinar á vísindatrénu hefur á síðari árum verið beitt æ oftar gagnvart mannskepnunni. Hér hefur lengi farið fremstur í flokki breskur maður sem heitir Desmond Morris.
Hann hefur það umfram aðra vísindamenn að skrifa fyrir almenning, sem sagt auðskilið lesmál um flókin viðfangsefni.
Þessi ágæti vísindamaður tilgreinir t.d. að jafnvel í stórborg á borð við New York, sé ættbálkafyrirkomulagið enn við lýði. Fólkið í þessari stórborg myndar kunningja- vina- og/eða fjölskylduhópa. Vissulega er hægt að vera meðlimur í fleiri hópum en einum, en það breytir ekki því að þú kemur vinunum til hjálpar þegar þörf krefur.
Desmond Morris skrifaði t.d. bókina ?Nakti apinn? sem kom út á íslensku 1968 og líka bókina ?Nakta konan? sem við Örnólfur Thorlacius þýddum og kom út 2005. (Því miður banna lög og reglur mér að birta síðarnefnu bókina á netinu í nokkur ár í viðbót.)
Svona rétt að endingu lýsi ég mig hjartanlega sammála Stefáni varðandi skönnun ?hafragr... ég meina heila útrásarfurstanna?.
Til baka
Efst á síðu
Skrá athugasemd
Tweet
X
Hafðu samband
Mitt nafn
*
Mitt netfang
*
*
Fyrirspurn
*
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Senda
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda
Mitt nafn
Mitt netfang
Athugasemd / efni:
X
Fréttabréf
Nafn
Netfang
*
*
Skrá netfang
Afskrá netfang
Fréttabréf í boði
Engin fréttabréf í boði.
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn
*
Netfang
Blogg / Vefsíða
Athugasemd
*
Talan í myndinni hér að ofan er
Skrá athugasemd