Bakgrunnur
Velkomin(n) á
JonDan.is
.
Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.
Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.
Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.
Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".
JonDan.is
Blogg
Greinasafn
Myndir
Hver er maðurinn
Fyrir mitt minni
Minningabrot
Af öðrum toga
Fjölskyldufréttir/Fami...
Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
júl.
14
2011
Almennt
Fórnarlamb aldarinnar
Sævar Marinó Ciesielski má held ég með fullum rétti kalla fórnarlamb 20. aldarinnar í sögu íslenskra stjórnarhátta og réttarfars, svo rækilega sameinuðust valdstofnanir samfélagsins við að kremja hann undir hæl sínum.
Ég kynntist Sævari dálítið á því tímabili sem eftir á að hyggja hefur kannski verið eitt hið besta í lífi hans. Það var 1997 þegar hann var að vinna því að með lögmanni sínum, Ragnari Aðalsteinssyni, að fá mál sitt tekið upp að nýju. Hann var þá glaðlyndur og bjartsýnn og hafði fulla ástæðu til, því galdrabrennuæðið, sem einkenndi hina upprunalegu málsmeðferð, var á þessum tíma orðið vel sýnilegt öllum þeim sem sjá vildu.
Ég var þá blaðamaður á Helgarpóstinum og skrifaði allmargar greinar um málið. Ég varð eiginlega agndofa þegar ég fór að rýna í málsskjölin og aðra þá skjalabunka sem málinu tengdust. Magnið var auðvitað ofboðslegt og flækjurnar margar, en óhroðinn blasti við nánast hvar sem gripið var niður.
Rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála var held ég alveg vafalaust óhugnanlegasti níðingsskapur sem íslensk lögregla og dómstólar hafa nokkru sinni gert sig sek um. Í rauninni fannst aldrei snefill af sönnunargögnum öðrum en þeim sem lögreglan sjálf fabrikeraði og fabúleraði. Á hinn bóginn er fullvíst að sakborningar sættu meðferð sem aldrei hefur verið hægt að kalla neitt annað en pyntingar.
Það eina sem er í rauninni fullvíst varðandi þá Guðmund og Geirfinn, er að þeir hurfu. Þótt ekkert bendi til annars en að þeir séu báðir látnir, er ekki einu sinni þar með sagt að dauða annars eða beggja hafi borið að með saknæmum hætti.
Þótt ekki væri nema vegna þess eins, að rannsókn málsins var í hreint bull frá upphafi til enda, hefði aldrei neitt annað átt að koma til greina en sýknudómur. En galdrafárið, sem lögregla og fjölmiðlar þyrluðu upp í sameiningu, útilokaði svo sjálfsagða niðurstöðu. Það var meira að segja orðin pólitísk nauðsyn að koma málinu út úr heiminum með fangelsisdómi.
Ég held að það megi fyrir löngu kalla hafið yfir allan vafa, að sakborningarnir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafi verið dæmdir saklausir. Það er og verður smánarblettur á íslensku samfélagi að málið skuli enn ekki hafa verið tekið upp og sakborningum veitt uppreisn æru.
Innanríkisráðherrann, yfirmaður lögreglu- og dómsmála, ætti að nýta þessa áminningu og fyrirskipa óháða rannsókn á þessu gamla galdrafári. Sú rannsókn kemur að vísu of seint fyrir Sævar Ciesielski, sem lést í gær, sléttri viku eftir 56 ára afmælið sitt, að endingu bugaður maður eftir áratuga ofsóknir íslenskra stjórnvalda.
En þörfin fyrir alvörurannsókn þessa máls er engu að síður brýn. Og þá á ég ekki sérstaklega við nýja rannsókn á mannshvarfsmálunum sjálfum, heldur miklu fremur rannsókn á starfsháttum lögreglu, fangavarða, embættismanna, stjórnmálamanna og blaðamanna meðan þessar brjálsemisofsóknir stóðu yfir.
Eftirlifandi aðstandendum Sævars votta ég mína innilegustu samúð.
Til baka
Efst á síðu
Skrá athugasemd
Tweet
X
Hafðu samband
Mitt nafn
*
Mitt netfang
*
*
Fyrirspurn
*
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Senda
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda
Mitt nafn
Mitt netfang
Athugasemd / efni:
X
Fréttabréf
Nafn
Netfang
*
*
Skrá netfang
Afskrá netfang
Fréttabréf í boði
Engin fréttabréf í boði.
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn
*
Netfang
Blogg / Vefsíða
Athugasemd
*
Talan í myndinni hér að ofan er
Skrá athugasemd