Maður með (dálítið gamaldags) sómatilfinningu, hefði skilað
peningunum strax og þeirra var krafist. Öllu heldur hefði slíkur maður
þó ekki skilað peningunum. Hann hefði nefnilega aldrei tekið við þeim í
upphafi.
Réttlætið og lögin fara því miður ekki alltaf saman. Þetta mál er
gott dæmi. En það eru gömul sannindi, að þegar réttlætið og lögin
greinir á, þá sigrar lagabókstafurinn.
Það er samt ekkert alveg víst að Halldór J. Krisjánsson sé
tiltakanlega vondur maður, eða t.d. siðblindur í sálfræðilegri merkingu
orðins. Það er allt eins líklegt að hann sé öllu fremur fórnarlamb
þeirrar almennu siðblindu sem hefur ekki bara farið sigurför um íslenskt
samfélag á síðustu áratugum, heldur um heiminn allan.
Þegar ég var líklega 14 ára, sagði ömmusystir mín mér, að hún hefði
„verið í vist“, sem sagt unnið fyrir aðra, stærstan hluta ævinnar „og
aldrei tekið hæsta kaup“, sagði gamla konan með stolti. Frá unglingsárum
mínum man ég líka vel eftir peningauppgjöri að loknum steypuvinnudegi.
Þá prúttuðu menn iðulega um verkalaunin. En það prútt var þveröfugt við
það sem nú tíðkast. Launagreiðandinn bauð hærra en sanngjarnt mátti
kalla, en launþeginn vildi ekki nema svo sem helminginn af því boðið
var. Svo mættust menn einhvers staðar á miðri leið.
Fyrir rúmum aldarfjórðungi kynntist ég manni sem þá var kominn yfir
áttrætt og hafði stundað viðskipti í Reykjavík allt sitt líf. Honum
fannst viðskiptasiðferði hafa hrakað til muna. „Í þá daga,“ sagði hann
nokkurn veginn orðrétt „þurftu viðskiptasamningar jafnvel ekkert
endilega að vera skriflegir. Hver og einn stóð við sitt. Það ríkti
traust á milli manna.“
Og mér er það minnisstætt frá Akureyrarárum mínum upp úr 1970, þegar
yfirmaður einnar af verslunum KEA var rekinn af ástæðum óþarft er að
rekja hér. Hann var ekki settur út á gaddinn, heldur fékk skrifborð í
höfuðstöðvunum. Ég geri enn ráð fyrir að Val Arnþórssyni hafi þótt
kaupfélagið bera vissa samfélagslega ábyrgð á afkomu fjölskyldunnar.
Langt fram eftir 20. öldinni ríktu sem sagt allt önnur viðhorf en nú.
Vissulega vildu menn láta starfsemi sína skila afgangi, en
hagnaðarkrafan mátti þó ekki bitna á öðrum. Heiður, sómi og samfélagsleg
ábyrgð, voru hugtök sem skiptu máli.
Nú virðist það eitt skipta máli að verða nógur ríkur, alveg sama
hvaða aðferðum þú beitir til að eignast peninga. Fórnarlömb þessa nýja
siðferðis skiptast augljóslega í tvennt: þá sem græða og hina sem tapa.
Halldór J. Kristjánsson er í fyrrnefnda hópnum.
Ég er kominn nokkuð á efri ár og á þess vegna kannski auðvelt með að
segja: Heimur versnandi fer. En það er reyndar ekki mín skoðun. Ég held
að heimurinn fari versnandi og batnandi á víxl. Og í timburmönnunum
eftir útrásarfylliríið, gefst okkur einstakt tækifæri til að bæta
heiminn örlítið. Færa hann stuttan spöl til baka.
Í samanlögðum vina- og kunningjahópi mínum er mér aðeins kunnugt um
einn mann sem í gegnum mannúðarsamtök hefur tekið að sér að kosta
uppeldi og menntun barns í einu af fátækustu löndum heims. Sá maður
lifir á örorkubótum, en tekst engu að síður að spara sér afgang til að
standa undir þessu.
Skyldi Halldór J. Kristjánsson eiga sér fósturbarn í Afríku?